Minnkandi neysla íslenskra unglinga á áfengi og öðrum ávana- og vímuefnum hefur vakið töluverða athygli á síðustu árum. Að meðaltali hefur dregið nokkuð úr áfengisnotkun og reykingum evrópskra unglinga, þó hvergi eins mikið og á Íslandi. Líklegustu skýringanna er að leita í auknu eftirliti foreldra og hugarfarsbreytingu í samfélaginu gagnvart unglingadrykkju. Aftur á móti er mikil notkun íslenskra unglinga á geð- og taugalyfjum án þess að hafa fengið þau ávísuð af lækni sérstakt áhyggjuefni. Þetta kemur fram í niðurstöðum Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar (ESPAD) sem kynntar voru nýverið.
Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, er ábyrgðarmaður íslenska hluta rannsóknarinnar. Um er að ræða langviðamesta rannsóknarverkefni sem unnið er að og snertir vímuefnaneyslu og aðra þætti í lífi unglinga, bæði þegar horft er til þátttökulanda, fjölda þátttakenda og lengd þess tímabils sem verkefnið nær til. „Evrópska vímuefnarannsóknin er samvinnuverkefni fræðimanna í rúmlega fjörutíu Evrópuríkjum. Meginmarkmið verkefnisins er safna sambærilegum gögnum yfir tíma um notkun vímuefna í eins mörgum Evrópulöndum og mögulegt er. Frá árinu 1996 hefur rannsóknin farið fram á fjögurra ára fresti með þátttöku sívaxandi fjölda ríkja innan álfunnar,“ segir Ársæll og bætir við að niðurstöður rannsóknarinnar veiti ítarlegar upplýsingar um breytingar á viðhorfum, þekkingu og neyslu unglinga á einstökum tegundum vímuefna yfir tímabil sem spannar tvo áratugi.
„Þannig er til dæmis fylgst með þeim aldri þegar unglingar taka fyrsta smókinn og drekka fyrsta áfengissopann. Einnig eru skoðaðar breytingar á tíðni og magni áfengisneyslu. Þá er fylgst með öllum helstu tegundum ólöglegra vímuefna, þar með töldum þeim sem hafa verið að ryðja sér til rúms annars staðar í heiminum en hafa ekki náð fótfestu á Íslandi svo vitað sé. Jafnframt eru vandamál vegna vímuefnaneyslu metin og fylgst með breytingum á viðhorfum unglinga til mismunandi vímugjafa.“
Stúlkur líklegri til að neyta áfengis
Í nýjustu niðurstöðum ESPAD-rannsóknarinnar kemur fram að mjög hefur dregið úr reykingum og áfengisneyslu íslenskra unglinga undanfarna áratugi. Árið 2019 höfðu u.þ.b. 15% unglinga á landinu öllu einhvern tíma prófað að reykja samanborið við 61% jafnaldra þeirra árið 1995. Svipaða sögu er að segja um áfengisneyslu. Í flestum landshlutum höfðu nokkuð fleiri stelpur en strákar reykt rafrettur síðasta mánuðinn og fleiri höfðu prófað rafrettur en sígarettur. Stelpur voru heldur líklegri en strákar til að hafa drukkið áfengi og þær voru sömuleiðis líklegri til að hafa innbyrt fimm áfenga drykki eða fleiri síðasliðinn mánuð. Aðgengi ungmenna að áfengi virðist mikið óháð búsetu á landinu en um 40% töldu auðvelt að verða sér úti um sterkt áfengi.
Af ólöglegum fíkniefnum töldu þátttakendur að auðveldara væri fyrir þá að verða sér úti um kannabis og róandi eða svefnlyf heldur en e-töflur, amfetamín og kókaín. „Önnur vímuefnanotkun, eins og kannabisneysla, hefur ekki aukist að umfangi en vísbendingar eru um að neyslan sé meiri en áður hjá þeim sem þess neyta. Það kemur einnig fram í þessum mælingum að íslenskir unglingar nota talsvert mikið af róandi lyfjum og ofvirknilyfjum án þess að læknar hafi skrifað upp á þau fyrir þessa einstaklinga,“ skýrir Ársæll. Þessi mikla lyfjanotkun tengist mögulega almennt mikilli notkun á geð- og taugalyfjum hér á landi að hans sögn.
„Langflest íslensk ungmenni eiga í góðum tengslum við foreldra, vini og skóla en sá hópur sem það á ekki við er verulega illa staddur varðandi heilsu, líðan og framtíðarhorfur. HBSC-rannsóknin sýnir jafnframt að samskipti við foreldra hafa mest áhrif á líðan ungmenna en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. Þann hóp sem á í vandræðum er mikilvægt finna og aðstoða,“ segir Ársæll.
Góð tengsl við foreldra vega þyngst
Ársæll hefur enn fremur komið að alþjóðlegu rannsókninni HBSC um árabil en í henni eru félagsleg tengsl unglinga könnuð. Í niðurstöðum þeirrar rannsóknar er að finna skýringar á minnkandi vímuefnaneyslu íslenskra ungmenna. Vegur þar þyngst góð tengsl við foreldra. „Langflest íslensk ungmenni eiga í góðum tengslum við foreldra, vini og skóla en sá hópur sem það á ekki við er verulega illa staddur varðandi heilsu, líðan og framtíðarhorfur. HBSC-rannsóknin sýnir jafnframt að samskipti við foreldra hafa mest áhrif á líðan ungmenna en tengsl við skóla mest áhrif á áhættuhegðun. Þann hóp sem á í vandræðum er mikilvægt finna og aðstoða,“ segir Ársæll að lokum.
Margir af virtustu fjölmiðlum heims hafa fjallað um jákvæða þróun í lifnaðarháttum íslenskra ungmenna á undanförnum árum. Þær skýringar sem hafa verið nefndar í þessu samhengi eru strangar útivistarreglur hér á landi, áhersla á skipulagt tómstundastarf ungmenna með stuðningi sveitarfélaga og aðgerðir sem byggðar eru á vísindalegri nálgun.
Um rannsóknarhópinn
Hérlendis er ESPAD-rannsóknin unnin í samvinnu Rannsóknarstofu í tómstundarfræðum og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands. Skýrslur um niðurstöðurnar og yfirlit um alþjóðlegar vísindagreinar sem byggjast á gögnunum eru tiltækar á vef verkefnisins.
ESPAD-rannsóknarhópurinn notar alþjóðlega viðurkenndar mælingar á þáttum eins og fjölskylduaðstæðum, uppruna, búsetu, félags- og efnahagslegri stöðu, andlegri líðan, tengslum við vini og fjölskyldu, lífsstíl og framtíðaráformum. Mælingar gefa kost á margvíslegum rannsóknum á orsökum og afleiðingum vímuefnaneyslu unglinga í einstökum löndum og í Evrópu í heild. Um hundrað fræðimenn víðs vegar um Evrópu vinna að úrvinnslu þessara gagna og hafa ýmsar mikilvægar niðurstöður á grundvelli þeirra birst í helstu fræðiritum heims á þessu sviði.