Skip to main content
11. nóvember 2020

Menntaumbætur í fyrsta sæti

""

Íslensku menntaverðlaunin verða veitt föstudaginn 13. nóvember næstkomandi. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Samtök áhugafólks um skólaþróun eiga heiðurinn að endurvakningu verðlaunanna en verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

„Um nokkurt skeið hefur stór hópur áhugafólks unnið að því að setja verðlaunin á fót að nýju og nú hefur það tekist með fulltingi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, og öflugum stuðningi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Alls koma fimmtán aðilar að verðlaununum, háskólar, stofnanir og félög sem hafa skipað viðurkenningarráð undir forystu Gerðar Kristnýjar, skálds og rithöfundar. Verðlaunin voru veitt í tíð fyrri forseta frá árinu 2005 en lögðust af skömmu eftir hrun,“ segir Ingvar aðspurður um sögu verðlaunanna.

Alltaf svigrúm til að gera betur

Mikil gróska er í menntakerfinu um þessar mundir og mýmörg dæmi um öflugt skóla- og frístundastarf um land allt. „Sem betur fer eru til margar uppskriftir að góðu skólastarfi. Í mínum augum skiptir umhyggja mestu máli auk stöðugrar viðleitni til að bæta starfið. Það er alltaf hægt að gera betur í skólastarfi. Ég vil þó gjarnan sjá nemendur oftar sem virka þátttakendur í eigin námi, meira af skapandi verkefnum þar sem þau eru gerendur og viðfangsefni sem tengjast samtíma og samfélagi – að ekki sé minnst á framtíðina.“

Fáir hérlendis hafa heimsótt jafn marga skóla og Ingvar en hann sinnir margvíslegum ráðgjafar- og rannsóknarverkefnum á vettvangi. Hann er einnig einn ritstjóra veftímaritsins Skólaþráða þar sem meðal annars er fjallað um framsækið skólastarf. „Á undanförnum árum hef ég leitast við að safna dæmum um áhugavert starf í skólum. Á bak við þessa viðleitni býr sú hugmynd að það þurfi ekki allir að finna upp hjólið. Það hefur verið gæfa mín að hafa fengið að sjá mikið af hágæða skólastarfi. Hvað áhugaverðust hafa mér þótt verkefni sem ná út fyrir skólastofuna, tengjast samfélaginu og eftirsóknarvert er að þau komi þar að notum; bæti umhverfið eða leggi til þess með jákvæðum hætti. Í þessu samhengi nefni ég sérstaklega verkefni sem nemendur í Lýsuhólsskóladeild Grunnskóla Snæfellsbæjar fengu að vinna í Salthúsinu á Malarrifi. Salthúsverkefnið hefur til að bera allt það sem prýða má gæðaskólastarf: ábyrgð nemenda á eigin námi og virka þátttöku þeirra, sköpun, samfélagsþjónustu, samvinnunám og teymisvinnu,“ lýsir Ingvar en nefnir einnig þróunarverkefnið Brúin í Brúarásskóla á Egilsstöðum, þemaverkefnið Draumalandið fyrir unglingastig í Grunnskólanum í Borgarnesi og K2 – verkefnastýrða námsbraut um tækni og vísindi í Tækniskólanum í Reykjavík.

Góð hugmynd er gulls ígildi

Þjóðmálaumræða um störf kennara hefur ekki alltaf verið uppbyggjandi. Umræðan hefur þó breyst til hins betra síðustu ár og mikil vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi kennarastarfsins. Samhliða aðgerðum stjórnvalda í menntamálum hefur aðsókn í kennaranám í háskólum landsins stóraukist. En hver eru áhrif samfélagsumræðunnar á ímynd kennarastarfsins og skólastarf? 

„Samfélagsumræðan hverju sinni skiptir gríðarlegu máli. Þá sér í lagi að almenningur hafi skilning á því hversu þýðingarmikið og krefjandi kennarastarfið er. Neikvæð umræða getur verið til mikils baga og beinlínis skaðað skólastarf. Foreldrar verða að standa með skólunum og beina gagnrýni sinni beint til þeirra en ekki að ræða hana yfir kvöldmatnum við börnin sín. Þá er mikilvægt að fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar veki athygli á því sem vel er gert í skólum. Ég hef ótal sinnum orðið vitni að því að góðar hugmyndir kveiki nýjar,” segir Ingvar en hann hefur lagt sitt af mörkum við að bæta ímynd kennara og stýrir meðal annars umræðusíðunni Skólaumbótaspjallið á Facebook. Þátttakendur á síðunni eru vel á sjötta þúsund og þar fara fram lífleg skoðanaskipti og miðlun á frábærum hugmyndum sem unnið er að á vettvangi skóla- og frístundastarfs.

Fyrirmynd hafði veigamikil áhrif á starfsvalið

Segja má að skólaumbætur séu hugsjón Ingvars enda hefur hann helgað kennslumálum meginhluta starfsævinnar. En hvað beindi Ingvari, sem stundum hefur verið kallaður faðir kennslufræðinnar hér á landi, á þessa braut? „Kennarar eru og hafa verið áhrifavaldar í lífi okkar flestra. Ég var með nokkra frábæra kennara í barnaskóla og heillaðist af starfi þeirra. Það var sérstaklega einn kennari sem ég hafði sem fyrirmynd og ég held að hann hafi í raun haft mest áhrif á starfsval mitt. Það kom aldrei neitt annað til greina en Kennaraskólinn eftir landspróf. Ég lauk kennaraprófi 1970 og hóf þá kennslu aðeins nítján ára gamall,” lýsir Ingvar en hann lauk einnig meistara- og doktorsnámi frá Sussex-háskóla í Suður-Englandi. Ingvar tók við lektorsstöðu við Kennaraháskólann árið 1989, sem síðar sameinaðist Háskóla Íslands, og hefur starfað þar allar götur síðan. Samhliða starfi prófessors hefur hann unnið umtalsvert við skólaráðgjöf.

Talið berst að menntun kennara. Þjóðir sem þykja bjóða upp á framúrskarandi kennaramenntun leggja ríka áherslu á að slíkt nám sé í senn fræðilegt og hagnýtt. „Að mínu mati verður að leggja megináherslu á starfstengingu. Þess vegna fagnaði ég ákaflega ákvörðuninni um starfsnám á lokaári kennaranáms. Það var skref í rétta átt en það mætti gjarnan ganga mun lengra og hafa öflugri tengsl við vettvang á öllum námsárum í kennaranámi. Lengi vel var rædd sú hugmynd að kennaranemar ættu sér heimaskóla og reynt var að hrinda henni í framkvæmd en því miður ekki með fullnægjandi árangri. Eins verð ég að viðurkenna að mér hefur fundist kennslufræði sem fræðigrein hafa átt undir högg að sækja í fræðasamfélaginu. Hún virðist ekki nægilega viðurkennd sem traust og mikilvæg fræðigrein – ekki einu sinni í þeim stofnunum sem bera ábyrgð á kennaramenntun. Það er vissulega í orði kveðnu en alls ekki nægilega í raun. Jafnframt má benda á að jafnvel framúrskarandi kennaramenntun er ekki mikils virði nema henni sé fylgt eftir með sífelldri endurmenntun og starfsþróun. Kennaranám er og verður ævilangt nám. Það þarf að breyta starfsskilyrðum kennara þannig að þeir geti stöðugt verið að efla sig í starfi – til þess þarf aukið svigrúm,” segir Ingvar að lokum og hvetur fólk til að gefa öflugu skólastarfi gaum.

Áhugasamir geta kynnt sér tilnefningar Íslensku menntaverðlaunanna á vef Skólaþróunar.

Íslensku menntaverðlaunin verða veitt föstudaginn 13. nóvember næstkomandi. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Samtök áhugafólks um skólaþróun eiga heiðurinn að endurvakningu verðlaunanna en verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Frá undirritun Íslensku manntaverðlaunanna á Bessastöðum 6. nóvember 2019. MYND/Kristinn Ingvarsson