Djammað í Taívan með hjálp tækninnar
Íslendingum gefst einstakt tækifæri til að skella sér út á djammið í örstutta stund á laugardag með hjálp tækninnar og fyrir tilstuðlan einstaks samstarfs listamanna og vísindamanna á Íslandi, Bretlandi og í Tavían. Þeir standa fyrir viðburðinum Out of Sync sem er hluti af rannsóknarverkefni við Háskóla Íslands sem tengist áhrifum kórónuveirufaraldursins á listalíf í landinu.
Flest lönd heims, þar á meðal Ísland, hafa að undanförnu glímt við vaxandi fjölda kórónuveirusmita með tilheyrandi samkomutakmörkunum sem hefur áhrif á bæði menningar- og atvinnulíf. Þetta á þó ekki við um eyjuna Taívan undan ströndum Kína því þar hefur stjórnvöldum tekist að halda veirunni niðri í langan tíma sem þýðir m.a. að fólk þar í landi getur hist á samkomum og farið út að skemmta sér.
Til þess að leyfa fleirum að njóta þessa frelsis sem Taívanbúar búa við hafa íslenskir, taívanskir og breskir listamenn og vísindamenn tekið saman höndum en þeir standa að viðburðinum Out of Sync sem fram fer á sama tíma í gallerínu Mengi við Óðinsgötu 2 og skemmtistaðnum FUL í Taívan á laugardag.
Viðburðurinn fer fram kl. 16-18 að íslenskum tíma en þá er klukkan 12 til 2 eftir miðnætti í Tavían. Undir taktföstum tónum tónlistarmannsins Hermigervils býðst gestum í Mengi að ganga inn í klefa í galleríinu og um leið slást þeir í hóp gesta á dansgólfi skemmtistaðarins FUL og upplifa stemmninguna með augum tveggja þátttakenda í viðburðinum, þeirra Lin SuLian and Chien ShihHan, sem verða á ferðinni um staðinn með upptökuvélar í rauntíma. Jafnframt verður hægt að fylgjast með djamminu heima í stofu í beinu streymi á vef viðburðarins fyrir tilstuðlan tækni frá VOLTA Audio sem þeir Owen Hindley and Yuli Levtov standa á bak við.
Uta Reichardt, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem skipuleggja viðburðinn en hann er tengdur rannsóknarverkefni sem hún vinnur að ásamt Rene Boonekamp. Það snýr að áhrifum kórónuveirufaraldursins á menningar- og listalíf á Íslandi með sérstaka áherslu á rýmistengda viðburði.
Þar sem viðburðurinn stendur aðeins í tvær klukkustundir í Mengi fær hver gestur að vera fjórar mínútur inni í klefanum og þurfa áhugasöm að panta tíma fyrir fram á vefnum. Tryggt verður að öllum sóttvarnareglum, sem gilda hér á landi, verði fylgt á viðburðinum og þá er grímuskylda í galleríinu.
Uta Reichardt, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, er meðal þeirra sem skipuleggja viðburðinn en hann er tengdur rannsóknarverkefni sem hún vinnur að ásamt Rene Boonekamp. Það snýr að áhrifum kórónuveirufaraldursins á menningar- og listalíf á Íslandi með sérstaka áherslu á rýmistengda viðburði. Uta hefur í rannsóknum sínum unnið náið með Listaháskóla Íslands og öðru lista- og fræðafólki víða um heim. Í þessu verkefni er m.a. verið að skoða hvernig þróa má nýjar leiðir til að koma list á framfæri og standa fyrir viðburðum á tímum samkomutakmarkana og hamfara.
Meðal þeirra sem styðja viðburðinnn er norræna öndvegissetrið NORDRESS sem vísindamenn Háskóla Íslands hafa haft forystu um undanfarin ár en markmið þess er að efla seiglu samfélaga á Norðurlöndum gagnvart hamförum og vá.