Nauðsynlegt að nálgast kennarastarfið af auðmýkt og hugrekki
Collaboration, Narrative, and Inquiry That Honor the Complexity of Teacher Education er ný bók eftir Karenu Rut Gísladóttur, dósent við Menntavísindasvið, og bandarísku fræðikonurnar Amy Johnson Lachuk og Triciu DeGraff.
„Markmiðið með bókinni var að draga fram þann ramma sem við höfum sett utan um vinnu okkar í gegnum tíðina. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hvað við höfum verið að takast á við í starfi okkar til að verða þeir háskólakennarar eða kennaramenntendur sem við viljum vera. Í framhaldi af því drögum við fram það sem við teljum mikilvægt að leggja alúð við í allri vinnu með kennurum og kennaranemum,“ segir Karen Rut Gísladóttir, einn höfundur bókarinnar.
Karen hefur lengi unnið náið með fræðikonunum Amy Johnson Lachuk og Triciu DeGraff en hún kynntist þeim í námi við Háskólann í Wisconsin-Madison vestanhafs fyrir hartnær tuttugu árum. Afrakstur samvinnunnar birtist í bókinni Collaboration, Narrative, and Inquiry That Honor the Complexity of Teacher Education. „Síðan leiðir okkar lágu saman höfum við lagt okkur fram um að skapa vettvang til að ræða nám og kennslu og styðja þannig hver aðra í starfi. Frá upphafi höfum við haldið utan um frásagnir okkar og rýnt sameiginlega í þær. Þetta gerðum við í þeim tilgangi að skilja betur það sem við erum að takast á við hverju sinni, hverju við erum að reyna að áorka í starfi og hvernig við náum að hrinda þeim áherslum í framkvæmd,“ lýsir Karen Rut.
Að sögn Karenar er kennsla og vinna með kennurum og kennaranemum eitt það gjöfulasta sem hún gerir. „Kennsla er vandasamt verkefni og það er svo margt sem hefur áhrif á þau verkefni sem við kennarar þurfum að takast á við á degi hverjum. Einn stærsti lærdómurinn sem ég hef dregið af starfi mínu sem íslenskukennari á grunnskólastigi, háskólakennari og kennararannsakandi, er að nálgast starf mitt af auðmýkt og hugrekki. Að hafa þor til að taka þau skref sem þarf til að búa nemendum góðar aðstæður sem gefa þeim tækifæri til að vaxa og dafna út frá eigin reynslu og þekkingu.“
Bókin nýtist öllum þeim sem starfa við kennslu, hafa hug á kennaranám eða eru nú þegar í námi á sviði menntavísinda. Bandaríska bókaforlagið Information Age Publishing gefur bókina út og er hún á ensku. Áhugasamir geta kynnt sér bókarkafla í opnum aðgangi á Amazon.