Þekking Háskólans í þágu samfélagsins
Háskóli Íslands tekur virkan þátt í samfélaginu með það að markmiði að starf skólans hafi sem víðtækust áhrif. Þetta er eitt af helstu markmiðunum í stefnu skólans og kallar auðvitað á að starf vísindamanna og kennara Háskólans verður mun fjölbreyttara en annars væri. Þótt rannsóknirnar standi gjarnan næst hjarta þessa fræðafólks, ásamt þeirri mikilvægu íþrótt að miðla þekkingu til nemenda, þá er framlagið til samfélagsins fjölbreyttara en felst í þessu tvennu.
Nærtækast er að tiltaka fjölmörg verkefni Háskólafólks sem tengjast COVID-19. Í því sambandi má t.d. nefna hið landsfræga spálíkan um þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi, starfshóp sem falið er að leggja mat á efnahagsleg áhrif COVID-kreppunnar með áherslu á vinnumarkaðinn, rannsókn á líðan þjóðar á tímum COVID-19, þátttaka fólks úr Háskóla Íslands í smitrakningateyminu og svör Vísindavefsins í þágu upplýstrar umræðu um COVID-19.
„Í Háskóla Íslands er fjölbreytt fagþekking og það er mikilvægur hluti af starfi háskólafólks að rækta og bæta við þá fagþekkingu. Því liggur beint við að leitað sé til háskólanna þegar þörf er á sérfræðingum til að vinna að stefnumótun og auðvelda ákvarðanatöku.“ Þetta segir Tómas Grétar Gunnarsson, vísindamaður og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Laugarvatni. Hann hefur tekið þátt í alls konar verkefnum í þágu samfélagsins á undanförnum árum samhliða starfi sínu í þágu líffræði og náttúruvísinda.
Þátttaka háskólafólks í stefnumótun mikilvæg stjórnvöldum
Þessa dagana situr Tómas Grétar Gunnarsson í nefnd um rammaáætlun vegna flokkunar virkjanasvæða í nýtingu, bið og vernd auk þess að sitja í nefnd um stefnumótun Íslands fyrir líffræðilega fjölbreytni. Þá er hann í stýrihópi fyrir gerð landsáætlunar í skógrækt og svo hefur hann setið í þriggja manna nefnd til að velja nýjan forstjóra ríkisstofnunar.
„Ég held að þátttaka háskólafólks í stefnumótun og nefndarstarfi sé mikilvæg fyrir stjórnvöld, almenning og háskólana sjálfa. Nýrri þekkingu sem er aflað með rannsóknum við háskóla er bæði miðlað með kennslu og svo beint út í samfélagið með fjölbreyttum hætti. Það skiptir almenning máli að stjórnvöld hafi aðgang að og nýti fjölbreytta fagþekkingu þegar móta á stefnu um mikilvæg mál og þar getur háskólafólk lagt mikið að mörkum eðli starfs síns vegna. Vinna við stefnumótun getur í sumum tilfellum einnig stutt við rannsóknir og kennslu með gagnkvæmum ávinningi,“ segir Tómas Grétar. Áhugi samfélagsins á að nýta krafta Háskólans helst að öllu leyti í hendur við stefnu skólans þar sem sérstakur þungi er lagður á að þekkingin innan hans nýtist við ákvarðanir sem varða stefnumörkun, samkeppnishæfni og farsæld samfélagsins.
Tómas Grétar leggur ekki aðeins sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum rannsóknir, kennslu og stefnumótunarvinnu á vegum stjórnvalda því hann hefur verið óþreytandi að miðla undrum fuglalífsins á Íslandi. Hann hefur um árabil leitt göngur Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands á slóðir farfuglanna á vorin en þær ferðir hafa verið afar vel sóttar af ungum sem öldnum. MYND/Kristinn Ingvarsson
Ótrúlega fjölbreytt verkefni í þágu samfélagsins
Til viðbótar framangreindum verkefnum í þágu samfélagsins má nefna að jarðvísindafólk Háskólans situr í vísindaráði almannavarna þar sem m.a. tekist er á við þá vá sem fylgir jarðhræringum og eldsumbrotum. Þá má nefna þátttöku sérfræðinga frá Háskólanum í starfshópi til að móta drög að menntastefnu sem tekur mið af fjölbreyttum hópi barna og ungmenna frá ólíkum menningarheimum.
Hér er í raun fátt eitt talið en því er við þetta að bæta að stefna skólans að þessu leyti tónar mjög vel við lög um opinbera háskóla sem hvetur þá til að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.
„Já, oftast er þetta vel metið framlag sem endurspeglast kannski í því að það leitað aftur og aftur til okkar sem höfum tekið að okkur svona verkefni,“ segir Tómas Grétar, aðspurður um viðbrögð samfélagsins við þessari þjónustu Háskólans.
„Það fer þó ekki hjá því að þau fræði sem við reynum að koma til skila rekist stöku sinnum á einhver horn hagsmuna,“ bætir hann við og verður hugsi. „Þetta er áberandi í umhverfisvísindum en þau tengjast oft nýtingu á náttúruauðlindum, svo sem lífi og landi, þar sem hagsmunir eru í húfi. Svo er oft verið að eiga við stór og flókin kerfi þar sem óvissa í mælingum og spádómum er talsverð. Hér má til dæmis benda á loftslagsbreytingar og tap á líffræðilegri fjölbreytni. Hvort tveggja eru grafalvarleg mál sem varða allt fólk og líf á jörðinni um langa framtíð,“ segir Tómas Grétar.
„Það algengt að hagsmunaaðilar og vísindafólk hafi ólíka sýn á hver á að njóta vafans í slíkum tilfellum. Ég tel að vísindafólk í þessari stöðu sé fulltrúar almennings og okkar helsta hlutverk og skylda sé að hafa það sem sannara reynist. Auðvitað er það svo stjórnmálafólkið sem þarf að ákveða hvernig það nýtir þann grunn sem fagvinna af þessu tagi skilar.“