Skip to main content
26. október 2020

Á þriðja hundrað erinda á Þjóðarspeglinum í ár 

""

Á þriðja hundrað rannsóknir sem snerta ýmsar hliðar samfélagsins, þar á meðal yfirstandandi heimsfaraldur og áhrif hans á Íslandi, verða kynntar á hinum árlega Þjóðarspegli: Ráðstefnu í félagsvísindum sem fram fer á vegum Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands föstudaginn 30. október kl. 9-16.45. Ráðstefnan fer að þessu sinni alfarið fram á netinu vegna samkomutakmarkana. 

Þjóðarspegilinn er nú haldinn í 21. sinn en hann hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem stærsta ráðstefna ársins hér á landi innan félagsvísinda. Þar koma saman fræðimenn innan og utan skólans og meistara- og doktorsnemar og kynna nýjar rannsóknir sem snerta ólíkar greinar félagsvísinda, þar á meðal félagsfræði, mannfræði, safnafræði, þjóðfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, viðskiptafræði, markaðsfræði, lögfræði, stjórnmálafræði og kynjafræði.  

Heimsfaraldur COVID-19 setur mark sitt á bæði dagskrá og fyrirkomulag Þjóðarspegilsins að þessu sinni, en öll erindi verða flutt á netinu, ýmist sem upptökur eða í beinni útsendingu. Þátttakendum gefst jafnframt færi á að taka þátt í umræðum að loknum erindum. 

Alls verður boðið upp á 219 erindi í 52 málstofum að þessu sinni auk veggspjaldakynninga og eru þátttakendur rúmlega 300.  

Eins og sjá má á vef Þjóðarspegilsins eru umfjöllunarefni ráðstefnunnar afar fjölbreytt. Þau snerta m.a. áhrif COVID-19 á tónlistarsenuna, félagsþjónustu og skólastarf og viðhorf landsamanna til sóttvarnaaðgerða en einnig forvarnir og inngrip vegna eineltis, kynbundið ofbeldi gagnvart erlendum konum hér á landi, karla og karlmennsku, leið kvenna til æðstu metorða, atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á Íslandi, seiglu samfélaga og nýjustu stefnur og strauma í stjórnarháttum fyrirtækja. Þarna ættu því öll að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Þjóðarspegilinn er öllum opinn og aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis. 

Vefsíða Þjóðarspegilsins

Fólk gengur út af Háskólatorgi