Umhverfi lífvera er margbreytilegt í tíma og rúmi og sú fjölbreytni hefur mikil áhrif á stofna. Í þéttbýlum löndum felur landnotkun manna oft undirliggjandi breytileika í náttúrufari en landnotkun og náttúrulegir ferlar spila saman á mismunandi mælikvörðum og oft er erfitt að greina á milli. Þéttleiki fólks á Íslandi er enn afar lágur en breytileiki í náttúrufari, einkum hvað varðar jarðfræði og veðurfar mikill. Norðlæg staða Íslands þar sem kaldir og hlýir hafstraumar mætast og sú eldvirkni sem fylgir Atlantshafshryggnum skapa einstök tækifæri til að rannsaka áhrif ýmissa náttúrulegra ferla á stofnvistfræði dýra. Ýmsar rannsóknir á tengslum náttúrulegra ferla og stofnbreytinga dýra hafa verið gerðar á síðustu árum sem nýta þessar óvenjulegu aðstæður á Íslandi.
Búsvæði
Fjölbreytni búsvæða á Íslandi er mikil sem stafar af óvenjulegri jarðfræði og breytilegu veðurfari. Vinna við rannsóknasetrið hefur oft snúist um að greina hvernig þéttleiki og útbreiðsla fuglastofna tengist breytileika í búsvæðum og hvaða áhrif mismunandi búsvæði hafa á lífslíkur og varpárangur. Sá skilningur er grunnurinn að því að geta spáð fyrir um áhrif landnotkunar á stofna. Fjölbreytni fugla- og smádýralífs tengist gróðurfari og vatnafari náið og breytileiki í íslenskum búsvæðum endurspeglast einnig í fuglalífi langt út fyrir landsteinana.
Jarðfræði
Jarðfræði er grunnur að allri fjölbreytni í lífríki bæði innan svæða og á heimsvísu. Þekking á tengslum jarðfræði og stofna er þó brotakennd, líklega einkum vegna þess að landnotkun manna felur víða áhrif jarðfræði. Með því að tengja saman rannsóknir á einstökum stofnum, vistkerfavöktun og landfræðilegar upplýsingar um dreifingu lífvera og breytileika í jarðfræði hafa verið tekin markviss skref í þá átt að skilja betur hvernig jarðfræði hefur áhrif á fjölda og lýðfræði dýra. Við höfum meðal annars sýnt fram á (í samstarfi við Ólaf Arnalds hjá Landbúnaðarháskóla Íslands) hvernig áfok hefur áhrif á frjósemi landvistkerfa. Einnig hvernig eldgos hafa neikvæð en tímabundin áhrif á fuglastofna.
Veðurfar og loftslag
Nokkrar rannsóknir sem hafa verið unnar við setrið sýna hvernig breytileiki í veðurfari, bæði yfir stutt og löng tímabil og milli landshluta, hefur áhrif á fuglastofna. Rannsóknirnar hafa til dæmis leitt í ljós hvernig tíðarfar að vori tengist varpárangri mófugla og tímasetningu farflugs. Einnig hvernig breytileiki í hitastigi yfir landið hefur áhrif á varpárangur grágæsa og hvernig óveður og kuldakaflar síðustu öldina hafa haft áhrif á þróun æðarstofnsins (í samvinnu við Jón Einar Jónsson á Háskólasetri Snæfellsness). Rannsóknir á veðurfari og loftslagi sem er að breytast af mannavöldum eru gott dæmi um hvernig náttúrulegur breytileiki og áhrif manna geta spilað saman.
Einfalt líkan af tengslum milli eðlisþátta, landnotkunar og þeirra þátta lífbreytileika sem rannsóknir við setrið snúast einkum um (Náttúrufræðingurinn 79:2010).