Skip to main content
29. september 2020

Rýna í áfallastjórnun á Norðurlöndum í kófinu 

""

„Í upphafi faraldursins síðastliðið vor vakti það athygli okkar að mörg ríki virtust vera óviðbúin heimsfaraldri sem COVID-19 og að þau brugðust mjög ólíkt við honum. Ríki sem eiga margt sameiginlegt, eins og norrænu ríkin, beittu ólíkum aðferðum við að eiga við þennan vágest,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, sem vinnur ásamt innlendum og erlendum starfssystkinum og nemendum Háskólans að rannsókn á viðbrögðum stjórnvalda á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku við kórónuveirufaraldrinum. 

Rannsóknin beinist að sögn Baldurs einkum að þeirri spurningu hvort sérfræðingar eða stjórnmálamenn ráði för við stefnumótun stjórnvalda í þessum löndum. „Það sást strax í upphafi faraldursins að í sumum ríkjum heimsins réðu stjórnmálamenn för varðandi viðbrögð við honum en í öðrum voru það sérfræðingar sem virtust hafa mest áhrif á stefnumótun stjórnvalda. Þetta eru fannst okkur áhugavert að skoða nánar,“ segir hann og bætir við að tilgangurinn með rannsókninni sé einnig að fá innsýn í hvernig mismunandi stjórnarhættir geta haft áhrif á stefnumótun stjórnvalda og hvernig leiðtogar og sérfræðingar hegða sér við áfallastjórnun.

Baldur stýrir verkefninu ásamt Ásthildi Elvu Bernharðsdóttur, sjálfstætt starfandi fræðimanni við ReykjavíkurAkademíuna og stundakennara í áfallastjórnun við Stjórnmálafræðideild. Að rannsókninni koma einnig samstarfsaðilar í hinum löndunum þremur sem eru undir smásjánni, þau Per Lægreid, prófessor emeritus við Háskólann í Bergen, Fredrik Bynander, forstöðumaður the Centre for Societal Security og dósent við Sænska varnarmálaháskólann, og Hanne Foss Hansen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Þá störfuðu þrír nemendur Háskóla Íslands við verkefnið í sumar, þau Hrafnkell Guðmundsson og Guðný Bára Jónsdóttir, meistaranemar í alþjóðastjórnmálum, og Vífill Harðarson, BA-nemi í stjórnmálafræði.  

„Það sást strax í upphafi faraldursins að í sumum ríkjum heimsins réðu stjórnmálamenn för varðandi viðbrögð við honum en í öðrum voru það sérfræðingar sem virtust hafa mest áhrif á stefnumótun stjórnvalda. Þetta eru fannst okkur áhugavert að skoða nánar,“ segir Baldur Þórhallsson. MYND/Júlíus Júlíusson

Greiningarrammi í áfallastjórnun til grundvallar

Til grundvallar rannsókninni liggur aðferðafræði sem þróuð hefur verið við Center for Societal Security við Sænska varnarmálaháskólann og Moynihan Institute of Global Affairs við Syracuse-háskólann í Bandaríkjunum. „Stefnumótun og ákvarðanataka stjórnvalda í tengslum við faraldurinn í ríkjum fjórum er sett inn í ítarlegan greiningarramma og metin út frá honum. Þegar hafa hundruð rannsókna í áfallastjórnun verið settar inn í þennan fræðiramma,“ segir Baldur og bætir við að Ásthildur Elva hafi stýrt mörgum rannsóknum á áfallastjórnun hér á landi sem og erlendis, þar sem notast hefur verið við greiningartækin.

„Innan fræðirammanns skoðum við til dæmis þætti eins og forvarnir, viðbúnað, upplýsingamiðlum, stjórnun, ákvarðanatökuhópa, leiðtoga, menningu, samvinnu og togstreitu og lærdóm. Fyrir nokkrum árum unnum við Ásthildur Elva að rannsóknum á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við áföllum þar sem við skoðuðum sérstaklega áhrif smæðar samfélagsins á ákvarðanatöku. Margt er enn ókannað varðandi áhrif lítillar stjórnsýslu og nálægar í litlum samfélögum á stefnumótun stjórnvalda í áföllum og okkur fannst tilvalið að taka þráðinn upp að nýju og kafa dýpra ofan áhrif smæðarinnar á ákvarðanir stjórnvalda í yfirstandandi faraldri,“ segir Baldur. 

Aðspurður um niðurstöður segir Baldur enn mikla vinnu fram undan við að máta stefnumótun stjórnvalda í löndunum fjórum og ákvarðanir þeirra inn í fræðiramma rannsóknarinnar og halda áfram að greina viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum enda er hann enn í fullum gangi. Hann undirstrikar jafnframt að með þessari samanburðarrannsókn á viðbrögðum ríkjanna fjögurra við faraldrinum fáist góð innsýn í stefnumótun og stjórnarhætti þeirra. 

Afrakstri verkefnisins og rannsóknarniðurstöðum verður miðlað í fjölbreyttu formi að sögn Baldurs, t.d. í í hlaðvörpum, samantektum um afmarkaða þætti verksins (e. policy briefs) og gegnum samfélagsmiðla og vefsíður þáttttakenda. „Auk þessa verða rannsóknir kynntar á alþjóðlegum ráðstefnum stjórnmálafræðinga og niðurstöður birtar í vísindatímaritum. Þegar hafa fjórir stuttir hlaðvarpsþættir verið gerðir og og birtir á Facebook-síðu verkefnisins, „Áfallastjórnun og Covid-19: Leiðtogar og sérfræðingar“, þar sem rannsóknin og núverandi staðan hennar er kynnt frekar,“ bætir hann við.

Hægt er að nálgast þættina hér.

Baldur Þórhallsson