Skip to main content

Glundroði einkenndi svefn, mataræði og atferli barnanna: Kynjuð orðræða um fjölskyldulíf á tímum heimsfaraldurs

Tengiliður

Auður Magndís Auðardóttir, aðjunkt og doktorsnemi
Tölvupóstur: ama@hi.is

Menntavísindasvið 

Menntavísindasvið gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki með menntun leik-, grunn- og framhaldsskólakennara, þroskaþjálfa, tómstundafræðinga, íþrótta- og heilsufræðinga og uppeldis- og menntunarfræðinga. Við sviðið eru stundaðar öflugar rannsóknir. 

Veggspjald rannsóknarinnar.

COVID-19 verkefni HÍ

Rannsóknarteymi

Auður Magndís Auðardóttir, aðjunkt og doktorsnemi

Annadís Greta Rúdólfsóttir dósent

Lýsing á rannsókninni

Í rannsókninni er stuðst við svokallað póststrúktúralískt sjónarhorn til þess að skoða orðræður um fjölskyldulíf, uppeldi og kynbundin einkenni þess á tímum skerts skólastarfs vegna COVID-19. Á tímum heimsfaraldurs og skerts skóla- og tómstundastarfs barna er mikilvægt að við skiljum hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa á jafnrétti kynjanna og fjölskyldulíf.

Aðferðafræði

Í rannsóknarverkefninu var gögnum safnað með sögulokaaðferðinni.

  • Þátttakendum var úthlutað af handahófi byrjun á sögu sem lýsti annað hvort móður eða föður tveggja barna á grunnskólaaldri á tímum skerts skólastarfs vegna COVID-19. 
  • Þátttakendurnir voru síðan beðnir um að segja frá næstu dögum í lífi foreldrisins. 
  • Alls var 97 sögum safnað í gegnum samfélagsmiðla á Íslandi þegar takmarkanir í samfélaginu voru sem mestar vegna COVID-19 vorið 2020. 
  • Þátttakendur voru að mestu leyti háskólamenntaðar konur en af þessum 97 sögum voru 14 karlar sem svöruðu. Mikilvægt er að lesa gögnin í því samhengi. 
  • Sögulokaaðferð hefur ekki mikið verið notuð hérlendis en aðferðin er afar vel til þess fallin að festa fingur á orðræður og það á hvaða hátt fólki er mögulegt að skrifa og hugsa um það rannsóknarfyrirbæri sem sjónum er beint að. 
  • Þar sem um skáldskap er að ræða eru þátttakendur frelsaðir undan því að þurfa að lýsa eigin lífi eða vera bundnir af samfélagslega viðurkenndum svörum. Á sama tíma er skáldskapur alltaf grundaður í því þekkta og mögulega innan samfélags okkar og sögurnar gefa okkur því mikilvæg gögn til að skilja og greina samfélagsgerðina. 

Karl notar óspart hljóðdempandi heyrnartól til þess að tryggja sitt eigið næði og rými. Hann fann þó fljótlega fyrir því að börnin kalla mun meira á mömmu sína en hann en þau hjónin tóku samtal um þetta um það bil viku inn í samkomubannið þar sem hún bað hann um að svara líka þegar þau kölluðu endalaust.

Kona, 31-40 ára, meistaragráða

Krakkarnir missa þolinmæðina algjörlega og byrja að rífast. Anna fær engan vinnufrið. Kl 12:30 er allt húsið í drasli, barnaefni í gangi og bæði börnin í spjaldtölvunum. Þau reyna aftur á morgun hugsar Anna á meðan hún skammast sín yfir því að eiga ekki jafn auðvelt með þetta og Helga sem setti inn mynd á samfélagsmiðla fyrr um morguninn og virtist hafa þetta allt saman á hreinu - húsið og nám barnanna!

Kona 31-40 ára, bakkalárgráða

Niðurstöður

Þemun sem greina má úr sögum þátttakenda einkennast af átökum á milli foreldrahlutverksins og atvinnuþátttöku og skiptust þau að mestu í eftirfarandi fjóra flokka:

  1. Hið skipulagða foreldri sem heldur híbýlum hreinum og tekur mikinn þátt í viðfangsefnum barna sinna. Í þessum sögum kom skýrt fram sú samfélagslega krafa um að mæður eiga að setja þarfir barna sinna ofar verkefnum sem tengjast launuðum störfum og að heimili ættu að vera hrein. Einkennandi var í þessum sögum að gerðar væru miklar kröfur til foreldra og þá sérstaklega mæður.  
  2. Hvaða eiginleikar þykja æskilegir við að takast á við þessar aðstæður, svo sem agi og jákvæðni. Í þessum sögum kom fram að tilteknum persónueiginleikum og viðmóti sé hampað umfram önnur og að gerður sé greinarmunur á þeim sem geta tekist á við mótlætið sem fylgir breyttum aðstæðum án þess að upplifa bugun og neikvæða sjálfsmynd í samanburði við aðra foreldra.
  3. Uppgjöf eða mótspyrna gagnvart samfélagslegum kröfum um hvað það felur í sér að vera gott foreldri. Í sumum af sögunum kom fram að þau sem áttu í erfiðleikum með að standa undir samfélagslegum kröfum um hvað það er að vera gott foreldri stóðu frammi fyrir því að annaðhvort streitast á móti þessum hugmyndum eða gefast upp. Uppgjöf í því samhengi fólst þá í að stunda ekki heimilisþrif og leyfa börnum að horfa á sjónvarp eða stunda óæskilega hegðun án afskipta foreldra. Í þessum sögum kom auk þess fram að uppgjöf fylgdi skömm. Mótspyrna fól í sér ákveðna endurskilgreiningu á því hvað felst í að vera gott foreldri sem rúmar þá ákveðinn slaka umfram skipulag og skýrt afmarkaða ramma.
  4. Hvernig faraldurinn dregur fram ólíka þátttöku mæðra og feðra í heimilishaldi. Í þessum sögum kemur skýrt fram sú algenga upplifun og afstaða að konur séu sá aðili innan heimilisins sem ber hvað mesta ábyrgð á heimilishaldi og barnasinnu. Margar sögurnar endurspegluðu ákveðið vantraust til getu og vilja karlmanna til að axla ábyrgð á verkefnum sem bundin eru við heimilið og ljóst er að orðræðan um hinn vanvirka heimilisföður er enn nokkuð sterk hérlendis.

Samantekt af áhrifaþáttum – Framlag til samfélags

  • Rannsóknin veitir okkur mikilvæga innsýn inn í orðræður á tímum neyðarástands vegna COVID-19 vorið 2020 en gögnum var safnað á meðan samkomutakmarkanir voru sem mestar.
  • Gögnin afhjúpa það með hvaða hætti þátttakendum var unnt að tala um fjölskyldulíf og álag sem skapaðist vegna skerts skólastarfs og átaka á milli umönnunar barna og atvinnuþátttöku.
  • Slík þekking er mikilvæg í sjálfu sér og getur nýst við stefnumótun á sviði jafnréttismála. Því hefur verið haldið fram að jafnréttisstarf hafi um of einblínt á opinber störf en að jöfn þátttaka í heimilishaldi og uppeldi hafi fengið minni athygli undanfarna áratugi. Þessi áhersla hafi svo skapað nær ómanneskjulegt álag á konur sem enn beri megin ábyrgð á heimilishaldi auk þess að sinna launaðri vinnu.
  • Rannsóknin sýnir fram á núning á milli þátttakenda, sem eru einkum háskólamenntaðar konur, og hins hefðbundna karls sem fyrirvinnu sem tekur ekki ábyrgð á heimilisstörfum. Því er þörf á að unnið sé með markvissari hætti að jafnari verkaskiptingu inni á heimilum.
  • Niðurstöður benda einnig til þess að mikilvægt sé fyrir okkur sem samfélag að horfast í augu við hvaða kröfur við gerum til foreldra og hvort þær séu svo miklar að þær komi niður á lífsgæðum foreldra og barna og möguleikum okkar til kynjajafnréttis.

Heimildir

Auðardóttir, A.M., & Rúdólfsdóttir, A. G. (2020). Chaos ruined the children’s sleep, diet and behaviour: Gendered discourses on family life in pandemic times. Gender Work & Organization. doi.10.1111/gwao.12519

Jóhann Ólafsson. (2020, 21. ágúst). Undirliggjandi pirringur áberandi. MBL. Sótt frá https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/08/21/undirliggjandi_pirringur_a...

 

Aðstandendur rannsóknarinnar, Annadís Greta Rúdólfsdóttir og Auður Magndís Auðardóttir.
Heimsmarkmið 3 og 5 - lógó