Skip to main content

Kortleggur ofbeldi gagnvart erlendum konum á íslenskum vinnumarkaði

""

Erlendar konur á vinnumarkaði eru líklegri en aðrir hópar til að verða fyrir alvarlegu ofbeldi á vinnustöðum samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðavinnumálastofnun. Á Íslandi voru nýlega gefnar út skýrslur sem benda á viðkvæma stöðu erlendra kvenna á íslenskum vinnumarkaði, s.s. skýrsla Velferðarráðuneytisins: Jafnrétti innflytjenda á Íslandi og skýrsla Stjórnarráðs Íslands: Konur af erlendum uppruna: Hvar kreppir að? en þær benda á á mikilvægi rannsókna á vinnutengdu ofbeldi gegn erlendum konum á Íslandi.

Linda Rós Eðvarðsdóttir, uppeldisfræðingur og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hyggst bæta úr því en hún hlaut níu milljóna króna styrk frá Jafnréttissjóði Íslands fyrr í sumar til að vinna að rannsókninni sinni: „Immigrant Women's Experiences of Employment-Based Violence in Iceland“. Niðurstöður rannsóknarinnar verða nýttar til að búa til fræðsluefni, auka flæði upplýsinga og aðgengi erlendra kvenna að réttindum sínum í íslensku samfélagi. Markmið verkefnisins er einnig að hafa áhrif á almenna stefnumótun sem varðar málefni erlendra kvenna og tryggja að sú vinna sé byggð á reynslu, þekkingu og rödd þeirra sjálfra.

Linda Rós er með BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðlegri þróun og uppeldisfræði frá Utrecht-háskóla í Hollandi. Hún stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands, sem fyrr segir, og hefur í starfi sínu lagt áherslu á samfélagsuppbyggingu, valdeflingu og samfélagsþátttöku ungmenna en síðustu ár hefur hún jafnframt barist gegn ofbeldi gegn konum.

Konur utan Evrópusambandsins í sérstakri hættu

„Rannsóknin er hluti af stærra verkefni, sem fræðimennirnir Brynja Elísabeth Halldórsdóttir og Jón Ingvar Kjaran leiða og hlaut þriggja ára styrk frá Rannís. Rannsóknin snýr að því að kortleggja reynslu erlendra kvenna af ofbeldi í nánum samböndum og á vinnustöðum á Íslandi,“ segir Linda Rós en kveikjan að þessari stærri rannsókn segir hún hafa verið reynslusögur erlendra kvenna á Íslandi sem birtar voru í Kjarnanum í janúar 2018 og voru hluti af #MeToo hreyfingunni.

„Sögurnar sýna hversu gróft, algengt og víðfeðmt ofbeldið, sem erlendar konur verða fyrir hér á landi, er. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni fyrir þær konur sem koma hingað frá löndum utan Evrópusambandsins. Takmörkun á aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum og vernd gegn ofbeldinu, þegar brotið er á þeim, getur haft alvarleg og langvarandi áhrif á konur. Nýlegar skýrslur benda á mikilvægi rannsókna um ofbeldi á vinnustöðum sérstaklega. Á Íslandi, og raun víðar í heiminum, er skortur á rannsóknum sem skoða reynslu erlendra kvenna af ofbeldi á vinnustöðum.“

Þungamiðjan í rannsókn Lindu Rósar og stærra verkefnisins er að safna saman reynslu erlendra kvenna á Íslandi, kortleggja ofbeldið sem þær verða fyrir og nýta það í beinar aðgerðar til að útrýma ofbeldinu gegn þeim. Ásamt því að kortleggja reynslu erlendra kvenna af ofbeldi á vinnustöðum leggur Linda sérstaka áherslu á að rannsaka stofnana- og vinnustaðamenningu og áhrif þeirra á að viðhalda og leyfa vinnustaðatengt ofbeldi gegn erlendum konum.

Linda Rós Eðvarðsdóttir

Rannsóknin verður þríþætt og verður notast við blandaða aðferðafræði. „Við byrjum á því að taka viðtöl við ákveðna hagsmunaaðila eins og lögregluna, Eflingu, lagasérfræðinga og fleiri. Síðan sendum við út könnun sem verður þýdd á sex algengustu tungumálum sem töluð eru á Íslandi. Í kjölfarið munum við taka viðtöl við erlendar konur þar sem við útvegum túlka þegar þess er þörf. Markmiðið að ná til sem víðasts hóps sem endurspeglar flóru innflytjenda á Íslandi. Núna er áherslan lögð á að greina fyrirliggjandi gögn eins og lagaskjöl og nýlegar skýrslur ásamt því að skoða femíníska stofnanavæðingu sem snýr að því að breyta og styrkja vinnustaðamenningu í átt að jafnrétti og án ofbeldis eða mismununar.“

Þöggun og eitruð karlmennska hafi áhrif

Þessi áhugi Lindu á menningu á vinnustöðum spratt að miklu leyti úr meistaraverkefni hennar sem snerist um að bera kennsl á það hvernig vinnustaðamenning ýti undir og viðheldur ofbeldi gegn konum og börnum. Verkefnið var unnið fyrir forvarnarsamtök í Ástralíu um ofbeldi gegn konum en þar skoðaði hún m.a. tengsl kynjaðrar vinnustaðamenningar og kynferðisofbeldis gegn börnum.

„Það kom mjög skýrt fram í niðurstöðunum að þegar konur voru í valdastöðum verkaði það sem verndandi þáttur gagnvart ofbeldi gegn börnum en hjá karlmönnum í valdastöðum verkaði það sem áhættuþáttur. Börn eru sem sagt líklegri til að verða fyrir áframhaldandi ofbeldi þar sem karlmenn gegna leiðtogahlutverki. Það er ekki vegna þess að karlkyns yfirmenn séu líklegri til að beita börn kynferðisofbeldi heldur vegna þess að þöggun, afneitun á frásögn þolenda og menning sem ýtir undir svokallaða eitraða karlmennsku er líklegri til þess að þrífast þar sem karlar stjórna. Þessar niðurstöður vöktu hjá mér gríðarlegan áhuga á hlutverki stofnana- og vinnustaðamenningar við að eyða kynbundnu ofbeldi. Það varð því óbeint kveikjan að því að ég ákvað að sækja um í auglýsta doktorsstöðu hjá Brynju Halldórsdóttur. Ég hafði hugsað mér að halda áfram að búa erlendis en þetta doktorsverkefni sameinaði áhuga minn af krítískum fræðum, femínisma og andrasisma. Ég flutti því aftur til Íslands áður en ég vissi hvort ég fengi stöðuna í þeirri von um að ég myndi fá að taka þátt í þessu verkefni. Það eru mikil forréttindi að kynnast krítískri rannsóknarvinnu í því teymi sem ég tilheyri í núna og ég er afar þakklát frábæru samstarfsfólki mínu sem samanstendur af Randi Stebbins, Susan Gollifer, Floru Tietgen og Telmu Velez.“

Mikilvægt að konur þekki rétt sinn

Þegar Kjarninn birti reynslusögur erlendra kvenna árið 2018, í kjölfar #MeToo, lýstu margir Íslendingar undrun sinni á fjölda reynslusagnanna og alvarleika ofbeldisins, sem kvenkyns innflytjendur verða fyrir af hálfu íslenskra einstaklinga, stofnana og íslenska ríkisins. Linda segist vilja auka vitneskju Íslendinga um þessi mál og uppræta efasemdir fólks um erfiða stöðu erlendra kvenna hérlendis. „Enn fremur viljum við að erlendar konur þekki rétt sinn og viti hvert þær geti leitað þegar brotið er á þeim. Við viljum hins vegar fyrst og fremst vinna að því að útrýma ofbeldi gegn erlendum konum á Íslandi. Sú ábyrgð liggur hjá Íslendingum, hvort sem það eru einstaklingar, ríkið eða stofnanir.“

Hún segir það mikil forréttindi að geta helgað sem mestri orku verkefninu sjálfu og þurfa ekki að taka að sér önnur störf á meðan. Því sé hún þakklát Jafnréttissjóði en það sé gríðarlega mikilvægt að sjóðurinn styrki málefni erlendra kvenna með þessum hætti.

„Það er tímabært að dýpka þekkingu okkar á málefnum erlendra kvenna, hvort sem það tengist vinnustaðaofbeldi eða öðru. Ég vona að þessi rannsókn, ásamt stærra verkefni Brynju og Jóns Ingvars, komi til með að nýtast sem undirstaða fyrir fleiri rannsóknir í þessum málaflokki.“