Menntavísindasvið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla
Verkefnið Heimilin og háskólinn úr smiðju Menntavísindasviðs hlaut tilnefningu til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla. Verðlaunin voru afhent í 25. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á afmælisdegi samtakanna í gær. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Djúpavogsskóla fyrir nytjamarkaðinn NOTÓ sem auðgað hefur lífið á Djúpavogi undanfarin ár. Ragnheiður Davíðsdóttir, sem setið hefur í stjórn Seljaskóla í mörg ár, var útnefndur dugnaðarforkur Heimilis og skóla og verkefnið Bókabrölt í Breiðholti hlaut sérstök hvatningarverðlaun.
Menntavísindasvið í samstarfi við Heimili og skóla ýtti úr vör fyrirlestraröðinni Heimilin og háskólinn fyrir foreldra síðasta vor. Þar fjölluðu fræðimenn skólans ásamt góðum gestum úr samfélaginu um ýmsar hliðar fjölskyldulífsins á tímum COVID-19 heimsfaraldursins. Á dagskrá voru fjölbreytt erindi um stuðning við nám barna og ungmenna, tengsl heimila og skóla, ólíkar námsgreinar, frítíma og rútínu, svefn og heilsu, bugun og bjartsýni. Fundirnir voru haldnir á ZOOM og mældust afar vel fyrir. Fyrirlestraröðin er hluti af Bakhjarlaverkefni Menntavísindasviðs.
Hvað er Bakhjarl?
Í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins höfðu starfsmenn Menntavísindasviðs snör handtök og komu upp vefsvæði Bakhjarla þar sem boðið er upp á ráðgjöf og stuðning fyrir starfsfólk og stofnanir í skóla- og frístundaumhverfinu. Enn fremur geta foreldrar sótt í sarp vefsins ýmis hollráð sem tengjast stuðningi við nám barna eða ráðgjöf sem varða velferð fjölskyldna. Á vefnum má einnig finna hagnýtar greinar sem nýst geta foreldrum og fagfólki meðal annars um heimastærðfræði, núvitund, heilsu og margt fleira.