Skip to main content
18. september 2020

Menntavísindasvið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla

""

Verkefnið Heimilin og háskólinn úr smiðju Menntavísindasviðs hlaut tilnefningu til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla. Verðlaunin voru afhent í 25. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu á afmælisdegi samtakanna í gær. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði samkomuna og afhenti verðlaunin. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Djúpavogsskóla fyrir nytjamarkaðinn NOTÓ sem auðgað hefur lífið á Djúpavogi undanfarin ár. Ragnheiður Davíðsdóttir, sem setið hefur í stjórn Seljaskóla í mörg ár, var útnefndur dugnaðarforkur Heimilis og skóla og verkefnið Bókabrölt í Breiðholti hlaut sérstök hvatningarverðlaun. 

Menntavísindasvið í samstarfi við Heimili og skóla ýtti úr vör fyrirlestraröðinni Heimilin og háskólinn fyrir foreldra síðasta vor. Þar fjölluðu fræðimenn skólans ásamt góðum gestum úr samfélaginu um ýmsar hliðar fjölskyldulífsins á tímum COVID-19 heimsfaraldursins. Á dagskrá voru fjölbreytt erindi um stuðning við nám barna og ungmenna, tengsl heimila og skóla, ólíkar námsgreinar, frítíma og rútínu, svefn og heilsu, bugun og bjartsýni. Fundirnir voru haldnir á ZOOM og mældust afar vel fyrir. Fyrirlestraröðin er hluti af Bakhjarlaverkefni Menntavísindasviðs.

Hvað er Bakhjarl?

Í fyrstu bylgju COVID-19 faraldursins höfðu starfsmenn Menntavísindasviðs snör handtök og komu upp vefsvæði Bakhjarla þar sem boðið er upp á ráðgjöf og stuðning fyrir starfsfólk og stofnanir í skóla- og frístundaumhverfinu. Enn fremur geta foreldrar sótt í sarp vefsins ýmis hollráð sem tengjast stuðningi við nám barna eða ráðgjöf sem varða velferð fjölskyldna. Á vefnum má einnig finna hagnýtar greinar sem nýst geta foreldrum og fagfólki meðal annars um heimastærðfræði, núvitund, heilsu og margt fleira.

Hópmynd af þátttakendum Foreldraverðlaunanna 2020; tilnefndum og verðlaunahöfum með ráðherra, formanni dómnefndar, formanni Heimilis og skóla og framkvæmdastjóra. Mynd: MOTIV