Sjö nýir lektorar ráðnir við Menntavísindasvið
Sjö nýir lektorar hófu nýverið störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Lektorarnir eru ráðnir til starfa við allar fjórar deildir sviðsins; Deild faggreinakennslu, Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Deild kennslu- og menntunarfræði og Deild menntunar og margbreytileika.
Eftirtaldir starfsmenn voru ráðnir:
Bergljót Gyða Guðmundsdóttir er nýr lektor í þroskaþjálfafræði við Deild menntunar og margbreytileika. Bergljót Gyða lauk BS-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands, MA-prófi í sálfræði með sérhæfingu í skólasálfræði frá University of Rhode Island í Bandaríkjunum og doktorsprófi í sömu grein frá sömu stofnun. Doktorsverkefni hennar bar heitið: Prescription stimulant misuse and ADHD symptomatology among college students in Iceland. Bergljót Gyða starfaði áður sem skólasálfræðingur hjá Reykjavíkurborg, stundakennari við Heilbrigðisvísindasvið og aðjúnkt við Menntavísindasvið.
Edda Óskarsdóttir er nýr lektor í kennslu- og menntunarfræði við Deild kennslu- og menntunarfræði. Edda lauk B.Ed-prófi í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og MA-prófi í sérkennslu frá University of Oregon í Bandaríkjunum. Edda lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands og bar doktorsverkefnið hennar titilinn: Constructing support as inclusive education: A self-study. Hún hefur verið viðloðin kennslu á Menntavísindasviði í mörg ár, lengi vel sem stundakennari en síðan sem aðjúnkt. Þá hefur Edda jafnframt starfað sem kennari, sérkennari og deildarstjóri stoðþjónustu í grunnskóla.
Gréta Jakobsdóttir er nýr lektor í heilsueflingu við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Gréta lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-prófi í matvæla- og næringarfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Frá sama skóla lauk hún síðan doktorsprófi og bar doktorsverkefnið titilinn: Short-chain fatty acids in health and disease – effects of dietary components. Í rannsóknum sínum hefur Gréta lagt áherslu á niðurbrot trefja í meltingarveginum og áhrif þeirra á heilsu. Gréta hefur verið sjálfstætt starfandi næringarfræðingur síðustu ár og sinnt kennslu og rannsóknum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.
Guðrún Sunna Gestsdóttir er nýr lektor í heilsueflingu við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Sunna er sálfræðingur að mennt með doktorspróf í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hennar bar heitið: Andleg líðan á unglings- og snemmfullorðinsárum: Breytingar á andlegri líðan og áhrif þreks og hreyfingar á andlega líðan. Rannsóknir og störf Guðrúnar Sunnu hafa hverfst um heilbrigðan lífsstíl, heilbrigðiskerfið og heilsueflingu þar sem megináherslan hefur verið á tengsl ólíkra þátta við andlega líðan ungs fólks.
Hanna Óladóttir er nýr lektor í íslenskri málfræði við Deild faggreinakennslu. Hanna er með BA-gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands og MA-gráðu í íslenskri málfræði frá sömu stofnun. Hún lauk doktorsprófi við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og nefndis verkefnið: Skólamálfræði: Hver er hún og hver ætti hún að vera? Um markmið og áhrif málfræðikennslu á unglingastigi grunnskólans. Hanna hefur verið aðjúnkt við Menntavísindasvið og þar áður Kennaraháskóla Íslands með hléum frá árinu 2005.
Laufey Elísabet Löve er nýr lektor í þroskaþjálfafræði við Deild menntunar og margbreytileika. Laufey lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MA-prófi í sömu grein frá New School for Social Research í Bandaríkjunum. Hún lauk doktorsprófi í fötlunarfræði frá Háskóla Íslands og bar doktorsverkefnið hennar heitið: Sjálfræði, jafnrétti og fötlun: Reynsla fatlaðs fólks sem uppspretta þekkingar við stefnumótun og lagasetningu. Laufey hefur sinnt stundakennslu í fötlunarfræði við Háskólann og vann fyrir Sameinuðu þjóðirnar við kynningu á mannréttindum barna, kvenna og eldra fólks.
Vaka Rögnvaldsdóttir er nýr lektor í íþrótta- og heilsufræði við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda. Vaka lauk íþróttakennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands og B.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá Auburn University Montgomery í Bandaríkjunum. Vaka hefur auk þess lokið M.Sc.-prófi og doktorsprófi í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Doktorsverkefni Vöku bar titilinn: Sleeping behavior and physical health of Icelandic adolescents. Helstu rannsóknarefni Vöku hingað til hafa fjallað um svefn, hreyfingu og heilsu íslenskra ungmenna. Vaka hefur kennt bæði íþróttir og bóknám í grunn- og framhaldsskóla. Hún hefur einnig starfað við íþróttaþjálfun og almenna heilsurækt. Vaka starfað sem aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda frá árinu 2015.
Menntavísindasvið býður þær allar hjartanlega velkomnar til starfa.