Skip to main content

Styður við flutning barna af erlendum uppruna úr leikskóla í grunnskóla

""

Fjöldi innflytjenda á Íslandi hefur aukist gríðarlega undanfarna áratugi og endurspeglast það glöggt í skólakerfinu. Um 13% allra leikskólabarna og 11% allra grunnskólabarna eru með annað móðurmál en íslensku. Í sumum sveitarfélögum er þessi tala mun hærri. Vísbendingar eru um að börnum með erlendan bakgrunn vegni verr í íslensku skólakerfi en jafnöldrum þeirra, þau upplifa frekar útilokun, vanlíðan og einangrun og þeim gengur einnig verr í samræmdum prófum og eru líklegri til að hætta í framhaldsskóla. Þetta vekur upp spurningar um hvernig íslenskt skólakerfi getur gert betur til að koma til móts við þarfir nýrra Íslendinga og hvað hægt er að læra af reynslu þeirra og þekkingu.

Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, og samstarfsfólk vill leggja sitt af mörkum og leita leiða til að styðja við flutning barna með ólíkan bakgrunn úr leikskóla í grunnskóla. „Sá flutningur markar tímabil mikilla breytinga í lífi þeirra og fjölskyldna þeirra. Komið hefur í ljós að samfella í námi barna og jákvæður flutningur milli skólastiga getur haft afgerandi áhrif á framtíðar skólagöngu þeirra,“ segir Jóhanna.

Hún vill því rannsaka og bæta aðstæður barna af erlendum uppruna í íslensku skólakerfi. „Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar á reynslu og sjónarmiðum barna og foreldra með erlendan bakgrunn á upphafi grunnskólagöngunnar og tengslum skólastiganna. Auk þess vildum við afla upplýsinga frá kennurum í leik- og grunnskólum og vinna með þeim við að skapa samfellu í námi barnanna og þróa menningarnæmar starfsaðferðir,“ segir hún. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hægt sé að gera mun betur þegar kemur að skólagöngu barna með annan menningar- og tungumálabakgrunn.

Jóhanna telur mikilvægt að hlustað sé á börnin og foreldra þeirra og þekking þeirra og reynsla verði betur nýtt. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að leikskólabörnum af erlendum uppruna finnst þau síður tilheyra hópnum, upplifa sig utanveltu. Þau voru valdaminni og áttu frekar á hættu að vera skilin útundan í barnahópnum.

„Sá flutningur markar tímabil mikilla breytinga í lífi þeirra og fjölskyldna þeirra. Komið hefur í ljós að samfella í námi barna og jákvæður flutningur milli skólastiga getur haft afgerandi áhrif á framtíðar skólagöngu þeirra,“ segir Jóhanna um flutning barna með ólíkan bakgrunn úr leikskóla í grunnskóla.

Niðurstöðurnar benda einnig til þess að kennarar finni til vanmáttar gagnvart kennslu í fjölbreyttum barnahópi þannig að börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli nái oft og tíðum ekki að nýta styrkleika sína, sem m.a. felist í reynslu þeirra menningu og móðurmáli. Viðtöl við foreldra af erlendum uppruna hafi leitt það í ljós að þeim, rétt eins og öðrum foreldrum, sé annt um menntun barna sinna, þau hafi væntingar gagnvart skólagöngu þeirra og vilji styðja þau í námi. Jóhanna telur mjög mikilvægt að endurskilgreina samstarf skóla og foreldra bæði í orði og á borði. „Ég vænist þess að rannsóknin auki skilning á gæðum menntunar yngstu borgaranna og hvernig stuðla megi að heildstæðri menntun íslenskra barna. Það er gífurlega mikilvægt að fá nýjar rannsóknir á íslensku menntakerfi, ekki síst í því síbreytilega semfélagi sem við lifum í,“ segir Jóhanna.

Auk þess að rannsaka þennan málaflokk hefur Jóhanna nýtt sérþekkingu sína innan hans í störfum fyrir stjórnvöld. Þannig fór hún fyrir starfshópi mennta- og menningarmálaráðherra sem falið var að móta drög að menntastefnu sem teku mið af fjölbreyttum hópi barna og ungmenna frá ólíkum menningarheimum. Starfshópurinn skilaði skýrslu um málið nú á vordögum sem finna má á vef Stjórnarráðsins.