Eitt af helstu viðfangsefnum Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum eru gamlar ljósmyndir; greining á þeim, rannsóknir og túlkun. Í því skyni eru tekin til skoðunar heildstæð ljósmyndasöfn í söfnum, myndasöfn einstakra ljósmyndara og myndasöfn í eigu einstaklinga. Eitt af þeim söfnum sem tekið hefur verið til rannsóknar er myndasafn Tryggva Samúelssonar áhugaljósmyndara sem er varðveitt á Ljósmyndasafni Íslands á Þjóðminjasafni. Greiningarverkefni var í gangi á vegum Ljósmyndasafnsins, Sauðfjárseturs á Ströndum og Rannsóknasetursins og fyrirhuguð er fræðileg umfjöllun um Tryggva og myndasafnið hans, annað hvort í formi greinar eða bókar.
Jafnframt hefur frá árinu 2020 verið í gangi, í samvinnu við Sauðfjársetur á Ströndum, viðamikið verkefni tengt ljósmyndum af Ströndum, söfnun þeirra, varðveislu og miðlun. Það ber titilinn Menningararfur í myndum og m.a. fengið öndvegisstyrk frá Safnasjóði. Setrin tvö stóðu fyrir útgáfu á bókinni Myndir og minningar af Ströndum á árinu 2022 og hafa einnig sett upp fjölda tímabundinna ljósmyndasýninga á Ströndum, staðið fyrir greiningarverkefnum og fleiri ljósmyndatengdum verkefnum.
Rannsóknasetur HÍ á Ströndum og Sauðfjársetur á Ströndum stofnuðu í sameiningu Facebookhópinn Gamlar Strandamyndir sem nýttur er til að fá yfirsýn yfir myndir úr héraðinu, miðla þeim og skrásetja og koma þeim í örugga varðveislu.