Skip to main content

Stofnvistfræði æðarfugls

Æðarfugl

Frá því í febrúar 2007 hefur Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi rannsakað stofnvistfræði æðarfugls: áhrif loftslagsbreytinga og gæða búsvæða á stofnbreytingar og stöðugleika nýtingar. Verkefnið var upphaflega styrkt af Rannsóknarráði Íslands (RANNÍS), Framleiðnisjóði og Æðarræktafélagi Íslands 2007-2009. Nú á dögum er það rekið af forstöðumanni Rannsóknasetursins sem hluti af reglulegri rannsóknastarfsemi. 

Upphaflega var lagt upp með að kanna tengsl loftslagsbreytinga og stofnstærðar æðarfugls og kanna stofnbreytingar m.t.t. breytileika í gæðum búsvæða. Verkefnið gengur út að að safna upplýsingum um fjölda hreiðra í æðarvörpum um gervallt Ísland. Margir æðarbændur hafa haldið bókhald í gegnum árin um þessar tölur, sem sýna mikinn breytileika í fjölda varpkollna milli ára. Um 40 æðarbændur tóku fyrst þátt árin 2007-2009, en svo bættust nokkur vörp við árið 2016.

Reynt er að uppfæra gagnasettin reglulega og þannig fylgjast með breytingum á stofnstærð, og tengja þær breytingum í hafinu eða stofnstærðarbreytingum rándýra eins og minks og tófu

Við skoðuðum tengsl milli fjölda hreiðra í æðarvörpum og veðurfars á Íslandi m.t.t. yfirstandandi loftslagsbreytinga. Haft var samband við æðarbændur (jarðir) um land allt, sem töldu sjálfir hreiðrin, sumir kynslóð fram af kynslóð. Að endingu söfnuðust hreiðurtölur frá 40 aðilum. Hægt var að rekja þróun stofnstærðar sl. 30 ár eða lengur í 18 æðarvörpum og voru þau til grundvallar greininni í Plos One. Mikill breytileiki var milli ára og æðarvarpa og almennt var lítil fylgni milli árlegra breytinga í fjölda hreiðra, þ.e. breytingar í stofnstærð milli ára voru fyrst og fremst háðar aðstæðum á hverjum stað.

Stofnstærð og þær veðurbreytur sem hafa áhrif á hana voru nokkuð mismunandi milli æðarvarpa, eru sennilega tengdar veðrabrigðum og samspili þeirra við landafræðilegar aðstæður hlynningu varpsins  á hverjum stað. Marktækt  samband fannst milli sumarveðurs og fjölda hreiðra 2-3 árum seinna í þremur æðarvörpum, þetta bendir til áhrifa veðurs á afkomu unga og þar með nýliðun 2-3 árum seinna (æður verður kynþroska 2-3 ára). Þetta samband byggir á að æðarfuglar verpa 2-3 ára í fyrsta sinn og að nýliðun skipti máli fyrir stofnstærð í viðkomandi æðarvarpi – en sum æðarvörp eru e.t.v byggð upp af eldri og reyndari kollum með háar lífslíkur og þá skiptir nýliðun tiltölulega minna máli. Í æðarvörpum sem eru tiltölulega háð nýliðun getur sumarveðrið 2-3 árum fyrr skipt talsverðu máli.

Veðuráhrif á æður á Íslandi virtust mest bundin við ýkt ár (s.s. frostaveturinn 1918, hafísárið 1969 eða kuldavorið 1979), þó svo að syrpa af mildum vetrum upp úr 1980 hafi einmitt hist á við aukningu í æðarvörpum um allt land. Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á æðarstofninn en þau hrif verða háð því hvernig veðrið á Íslandi bregst við áframhaldandi breytingum. Verði loftslagsbreytingar á þann veg að vetur á Íslandi verði umhleypingarsamari en nú er er t.d. að vænta neikvæðra áhrifa miðað við þessar og eldri niðurstöður frá 2009, sem birtust í Climate Research.

Hreiðrum æðarfugls fjölgaði um 85% 1977-1990, en fækkaði til baka um 17% 1991-2000. Frá og með 2001 til 2007 eru til hreiðurtölur fyrir alls 40 æðarvörp, og fækkaði hreiðrunum á landsvísu um tæp 20% á þeim tíma (miðað við 1977 sem 100%). Þó var fjöldi æðarhreiðra 2007 rúmlega 44% meiri en þau voru árið 1977, áður en fjölgunin hófst. Stöðugleikinn var mestur í Vestureyjunum á Breiðafirði, þar sem aukinn fjöldi hreiðra frá 8. áratugnum hélst að mestu til 2007. Hlýskeið hófst í veðurfari 1995, um sama leyti og fjölgunin stöðvaðist eða byrjaði að ganga til baka og er það rannsóknarefni að skýra hvers vegna þessir atburðir gerðust samtímis. Athyglisvert að þessar stofnbreytingar 1980-2000 gerast á svipuðum tíma og loðnuveiði eykst við Ísland 1980-1990 en verður brokkgengari 1991-2000.

Atburðir á næstu árum munu aðeins leiða til þekkingar sé haldið áfram að fylgjast með þróun æðarvarpa, og tengja svo þær upplýsingar við breytingar á veðurfari og talningar á ungum, sem hófust 2007 og talningum á kynja- og aldurshlutföllum, sem hófust 2010. Auk þess væri æskilegt að mæla fæðu æðarfugls samtaka þessari talningu á hreiðrum, sem er okkar besta tæki til að fylgjast með stofnstærð æðarfugls.

Við höfum mikinn áhuga á að halda þessari skráningu og samantekt áfram með ykkar hjálp. Við þiggjum allar spurningar og ábendingar sem þið kunnið að hafa um greinina, og getið sent þær á joneinar@hi.is, eða haft samband  símleiðis í 433-8115. Við myndum gjarnan kjósa að uppfæra gagnagrunnana á 5 ára fresti og sumir hafa sent okkur uppfærslur árlega síðan 2008.

Fjórar greinar rannsóknasetursins byggja á þessum niðurstöðum þegar þetta er ritað (2017):

Jón Einar Jónsson, Þórður Örn Kristjánsson, Árni Ásgeirsson & Tómas G. Gunnarsson. 2015. Breytingar á fjölda æðarhreiðra á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 85: 141–152.

Jón Einar Jónsson. 2017. Eru tengsl milli æðarvarps og loðnugengdar?  Náttúrufræðingurinn 87: 45-51. 

Jón Einar Jónsson, Arnþór Garðarsson, Jenny G. Gill, Una K. Pétursdóttir, Ævar Petersen & Tómas G. Gunnarsson. 2013. Relationships between long-term demography and weather in a sub-arctic population of common eider. Plos One June 2013, Volume 8, Issue 6, e67093

Jón Einar Jónsson, Arnþór Garðarsson, Jenny G. Gill, Ævar Petersen, Tómas G. Gunnarsson. 2009. Seasonal weather effects on a subarctic capital breeder: common eiders in Iceland over 55 years. Climate Research 38:237-248.

Auk þess var gerð yfirlitsgrein um æðarfugl og skyldar tegundir:

Jón Einar Jónsson, Ævar Petersen, Arnþór Garðarsson og Tómas G. Gunnarsson (2009).Æðarendur: Ástand og stjórnun stofna. Náttúrufræðingurinn 78 (1-2): 46-56 2009.

Æðarkolla
Með árlegum talningum á fjölda æðarhreiðra fæst vísitala á stofnbreytingar æðarfugls. Þetta hreiður er í Þorvaldsey á Breiðafirði.
Æðarkollur sýna varpstað sínum talsverða tryggð og sumar verpa í sömu hreiðurstæðin ár frá ári. Margar færa þó hreiðrin um einhverja metra eða jafnvel hundruð metra.
Æðarhópur á Akranesi vorið 2018. Margar af æðarkollunum í Breiðafirði hafa vetursetu m.a. í Faxaflóa. Til vinstri sést æðarkóngur á 1. vetri.
Æðarhópur á Akranesi vorið 2018. Á þessum tíma var verið að landa loðnu á Akranesi og þá sjást þúsundir æðarfugla í grennd en loðnugengd virðist hjálpa æðarfuglinum að byggja upp næringarforða.
Æðarhjón halda saman yfir veturinn en þegar kollurnar verpa fara blikarnir í hópa. Þeir eru þó aldrei langt undan og sýna kollunum áhuga ef þær fara af hreiðrinu. Myndin er tekin við Stykkishólm.
Með því að fylgjast með merktum einstaklingum fæst mat á lífslíkum, tryggð við varpstað og hægt er að tengja varpárangur við þessa þætti.
Breiðafjörður er eitt mikilvægasta varpsvæði æðarfugls á Íslandi. Eyjarnar eru varpstaðir og þangsvæðin uppeldisstöðvar fyrir ungana.
Ítarefni um æðarfuglinn