Skip to main content
5. júní 2020

Starfsþjálfunarsamningur við Framkvæmdasýslu ríkisins

Ásta Dís Óladóttir, formaður grunnnámsnefndar í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins undirrituðu í gær samning um starfsþjálfun fyrir viðskiptafræðinema. Viðskiptafræðideild býður upp á starfsþjálfun í fyrsta sinn í haust og hefur grunnnámsnefnd séð um undirbúning verkefnisins fyrir hönd deildarinnar í góðu samstarfi við Tengslatorg Háskóla Íslands. Tengslatorg (tengslatorg.hi.is) er stafrænn samstarfsvettvangur Háskóla Íslands og atvinnulífsins þar sem hægt er að koma á samstarfi við nemendur og rannsakendur skólans.

„Þessi samningur Viðskiptafræðideildar við Framkvæmdasýsluna staðfestir hin miklu tengsl sem deildin hefur við atvinnulífið og erum við að nýta þau tengsl nemendum til hagsbóta. Vinna stendur yfir við fleiri samninga og vænta má fleiri frétta á næstu dögum af fyrirtækjum og stofnunum sem hyggjast starfa með deildinni. Það er því spennandi haust framundan fyrir nemendur í Viðskiptafræðideild. Starfsþjálfun á tímum sem þessum er afar mikilvæg því þarna opnast ákveðnar dyr fyrir nemendur, til þess að læra og öðlast reynslu í tilteknum atvinnugreinum sem þeim sjálfum þykja áhugaverðar“ segir Ásta Dís.

Áhugasömum fyrirtækjum sem vilja taka þátt í verkefninu er bent á að hafa samband við Jónínu Kárdal hjá Tengslatorgi Háskóla Íslands - joninaka@hi.is
 

Guðrún Ingvarsdóttir og Ásta Dís Óladóttir undirrita samninginn