Metaðsókn á Vísindavefinn í mars
Vísindavefur Háskóla Íslands sló vikulegt aðsóknarmet sitt í marsmánuði 2020 - og það reyndar tvisvar sinnum. Í tólftu viku ársins (frá 16. mars til 22.) voru vikulegir notendur rúmlega 45.000 og höfðu aldrei verið fleiri. Í vikunni þar á eftir var metið strax slegið þegar vikulegir notendur mældust 49.850.
Gestafjöldi Vísindavefsins í mánuðinum jókst um 18,5% miðað við marsmánuð 2019. Allar tölur um vefumferð koma frá Modernus sem rekur samræmda vefmælingu.
Listi yfir mest lesnu nýju svörin kemur væntanlega fáum á óvart enda augljóst á hverju spyrjendur og lesendur Vísindavefsins hafa mestan áhuga um þessar mundir. Hér fylgir listi yfir fimm vinsælustu nýju svörin í marsmánuði:
Var COVID-19-veiran búin til á rannsóknastofu í Wuhan og sett saman úr SARS og HIV?
Hvaðan kom COVID-19-veiran?
Er hægt að smitast tvisvar af COVID-19?
Drepur handspritt kórónaveiruna?
Hvaða áhrif hefur handþvottur með vatni og sápu á veirur?
Listinn yfir eldri svör á vefnum sem mikið voru lesin í marsmánuði er einnig fróðlegur:
Hvað var spánska veikin?
Hver er eðlilegur líkamshiti manns?
Hver eru einkenni lungnabólgu?
Hver er munurinn á bakteríu og veiru? Eru sýklar og bakteríur það sama?
Hver voru einkenni spænsku veikinnar og hvernig hagaði hún sér?
Vísindavefurinn þakkar lesendum og spyrjendum sínum fyrir áhugann. Það er ánægjulegt að sjá að sjá hversu mikill áhugi almennings á traustri, vísindalegri þekkingu er. Einnig er vert að þakka öllum höfundunum sérstaklega fyrir vel unnin og upplýsandi svör um allt það sem tengist veirum og COVID-19. Vakin er sérstök athygli á því að öll svör um þessi efni er að finna í sérstökum flokki: Vísindavefurinn: Veirur og COVID-19