Sigga litla systir mín
situr úti í götu,
er að mjólka ána sín
í ofurlitla fötu.
Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.
Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.
„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.
Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu
Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samvevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.
Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.
„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm,“ segir Árni Daníel Júlíusson sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.
Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.
Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.
Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.
Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði. Þar er sannarlega hægt að efla þekkingu og rannsóknir,“ segir hann.
Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi. Ekki er verra ef hægt er að hefja slíkar rannsóknir í nánu samstarfi við þá sem sinna rannsóknum á seljabúskap í öðrum löndum,“ segir Árni Daníel að endingu.