Skip to main content
11. febrúar 2020

Samtal kynslóðanna um loftslagið

""

Í vetur hefur fyrirlestraröð Menntavísindasviðs um hlutverk menntakerfisins og loftslagshamfarir vakið athygli og verið vel sótt. Feðginin Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika, og Eir Ólafsdóttir, tónlistarkona og framhaldsskólanemi, stigu á stokk í þriðja fyrirlestrinum og ræddu um loftslagið í tali og tónum á áhrifaríkan hátt. Með Eiri var hljómsveit hennar Ateria en í henni eru einnig Ása Ólafsdóttir og Fönn Fannarsdóttir. 

Getur fullorðið fólk lesið sér til gagns?

Í erindi Ólafs Páls kom meðal annars fram að í starfi hans sem prófessor við Menntavísindasvið kæmist hann allajafna ekki hjá því að veita PISA-niðurstöðum sérstaka athygli. Raunar væri vart þverfótað fyrir fréttum af því að stór hluti ungu kynslóðarinnar gæti ekki lesið sér til gagns.

„Það er ekki sagt berum orðum að við, þessi kynslóð fullorðinna sem höfum setið næst kjötkötlunum undanfarna áratugi, getum lesið okkur til gagns, en þó finnst mér það einhvern veginn liggja í því sem sagt er. Ég efast um að það sé rétt. Ef við búum yfir getu til að lesa okkur til gagns, þá höfum við farið sparlega með þá getu undanfarna hálfa öld eða svo,“ mælti Ólafur Páll

Eir ávarpaði kynslóð hinna fullorðnu og var afar gagnrýnin á menntakerfið. Þess væri krafist að börn og ungt fólk gengju í skóla til að undirbúa þau fyrir framtíðina, framtíð sem unnið væri markvisst gegn – framtíð sem senn verður ekki til. 

„Menntakerfið byggist á markmiðum og skipulagi sem hefur verið úrelt um árabil og nú blasir við hverju það hefur skilað. Það skilaði af sér afar litlu náttúrulæsi, umhverfislæsi, samfélagslæsi, læsi á siðferðileg verðmæti og langtímasýn. Þetta kerfi hefur kennt ykkur að lifa ykkur til gagns, en ekki öðrum, ekki jörðinni, og hvað þá næstu kynslóðum.“ 

Kvíðinn verður drifkraftur vonar

Eir lýsti enn fremur kvíðanum sem býr í mörgum börnum og ungmennum nú til dags. Kvíðinn væri óþolandi og ógnvænlegur en að sama skapi ótrúlegur drifkraftur. Það væri vissulega þægilegra að leiða hann hjá sér, kvíðinn væri orkufrekur og í dagsins önnum væri margt sem bægði honum frá. Kvíðinn væri þó til staðar af góðri ástæðu, hann þróaðist ekki hjá ungu kynslóðinni fyrir slysni.

„Hann [kvíðinn] getur fengið mig til að skrifa heilu ritgerðirnar á allt of stuttum tíma, hann getur fengið mig til að fara tíu mínútna leið á fimm mínútum og hann getur sko, fjandinn hafi það, fengið okkur til að snúa við þeirri vitleysu sem hefur ráðið för síðustu ár og áratugi,“ sagði Eir að lokum og uppskar mikið lófatak. 

Ateria lék þrjú lög fyrir gesti og feðginin Ólafur Páll og Eir dreifðu kveri til gesta sem áhugasamir geta lesið.

Hér er textabrot úr lagi þeirra Vituð ér enn, eða hvað?

Taktu með
blómabeð
þar sem þú pakkar öllu
þínu geði.

Hljóðs bið ég hér
nú ferst heimur vor
en til er ekki neitt
sem þið munuð tíma að breyta.

– Hljómsveitin Ateria

Hljómsveitin Ateria lék þrjú lög fyrir gesti en hana skipa Eir Ólafsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Fönn Fannarsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson
Eir Ólafsdóttir, tónlistarkona og menntaskólanemi, ávarpaði kynslóð hinna fullorðnu og var afar gagnrýnin á menntakerfið. Þess væri krafist að börn og ungt fólk gengju í skóla til að undirbúa þau fyrir framtíðina, framtíð sem unnið væri markvisst gegn – framtíð sem senn verður ekki til. MYND/Kristinn Ingvarsson