Fögnuðu tíu ára afmæli ritversins
Tíu ára afmæli ritvers Menntavísindasviðs var fagnað með góðum gestum í Stakkahlíð þann 2. desember síðastliðinn. Við þetta tilefni lýsti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, tilurð og farsælli sögu ritversins frá upphafi – en það þykir fyrir löngu hafa fest sig í sessi sem viðurkennd og óumdeild miðstöð ritfærni í íslenskum háskólum. Hann þakkaði frumkvöðlum og eldhugum þeim sem komu að stofnun ritversins í Stakkahlíð og nefndi þar sérstaklega Baldur Sigurðsson, dósent við Deild kennslu- og menntunarfræði og náinn samverkamann hans, Hafþór Guðjónsson, prófessor emerítus.
Aðspurður er Baldri efst í huga á þessum tímamótum hversu nemendurnir sem hann hefur fengið hafa sinnt verkefni sínu af miklum áhuga og gleði. „Þetta starf að leiðbeina samnemendum, kveikti í þeim einhvern neista sem ég held að eigi eftir að fylgja þeim í lífinu.“ lýsir Baldur og segist auk þess verða sérstaklega hugsað til „þeirrar velvildar og stuðnings sem ritverið hefur notið meðal samkennara.“
Við sama tækifæri var tilkynnt um sameiningu ritveranna á Menntavísinda- og Hugvísindasviði en ritverin tvö hafa átt náið og gott samstarf á undanförnum árum. Hið nýja Ritver Háskóla Íslands mun hafa aðstöðu í Þjóðarbókhlöðunni og þjónusta alla nemendur Háskólans frá og með komandi áramótum. Randi W. Stebbins mun veita ritverinu forstöðu en mikilvæg starfsstöð mun áfram vera í Stakkahlíð.
Í ritverinu fá nemendur stuðning og leiðsögn í vísindalegum vinnubrögðum og ritun fræðilegs texta. Megintilgangur þess er að hjálpa nemendum til sjálfshjálpar og að auka færni sína á eigin forsendum. Ritverið hefur einkum verið mannað nemendum sem leiðbeina öðrum nemendum á grundvelli hugmyndafræði jafningjaráðgjafar. Viðtalsfundir hafa farið upp undir 1.000 á ári auk þess sem leiðbeiningavefur ritversins um meðferð heimilda fær um 100.000 heimsóknir á ári hverju.