Hlýtur 75 milljóna króna styrk til rannsókna á æðaþeli
Sarah McGarrity, nýdoktor við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands, hefur hlotið fjögurra ára nýdoktorastyrk frá lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk upp á tæplega 75 milljónir króna til að vinna að samstarfsverkefni milli Brigham & Women's Hospital, Harvard Medical School, Rigshospitalet í Kaupmannahöfn og Læknadeild Háskóla Íslands.
Verkefnið kallast: „The effect of the endothelial glycoclayx on superoxide dismutase, glutathione peroxidase and nitric oxide synthase activities during stimulation,“ sem útleggst á íslensku: Áhrif sykrunga á virkniensím samfara virkjun æðaþels.
Um er að ræða grunnrannsókn þar sem leitast er við að kanna hlutverk yfirborðs sykrunga og ensíma í starfsemi og virkjun æðaþels. Æðaþel er einfrumulag á innanverðum æðum. Sykrungar á yfirborði æðaþelsfrumna eru samsettir úr löngum greinóttum keðjum af einsykrum, t.d. glúkósa, mannósa og glúkósamíni, sem mynda einskonar varnarvegg milli blóðs og vefja. Virkjun æðaþels er einn þáttur í eðlilegu bólgusvari. Brenglað bólgusvar tengist hins vegar margvíslegum hjarta- og æðasjúkdómum, svo sem hjartaáfalli, háþrýstingi og heilablóðfalli, en þáttur yfirborðssykrunga á æðaþeli er illa skilgreindur. Þess má geta að verkefnið verður unnið í samstarfi við dr. Joseph Loscalzo sem mun halda fyrirlestur á vegum framhaldsnáms í lífvísindum (GPMLS) og Lífvísindaseturs Háskóla Íslands þann 13. maí næstkomandi.
Sarah, sem hefur áður unnið að efnaskiptarannsóknum á æðaþeli á tilraunastofu Óttars Rolfssonar, prófessors við Læknadeild, verður staðsett í Boston fyrstu þrjú árin en síðasta árið verður hún hér á landi. Styrkurinn kemur að fullu til Háskóla Íslands og er ætlaður að styrkja alþjóðleg rannsóknartengsl og verkefni. Árlega eru veittir fimm Novo Nordisk nýdoktorastyrkir og er þetta í fyrsta skipti sem slíkur styrkur hefur fengist hingað til lands.