Tómstundir eldri borgara
„Tómstundir á öllum æviskeiðum eru afar mikilvægur þáttur í lífsgæðum fólks, ekki síst á efri árum þegar mun meira ráðrúm gefst til að sinna þeim. Viðfangsefnið er brýnt innan tómstundafræðinnar enda starfa tómstunda- og félagsmálafræðingar í auknum mæli á þeim vettvangi.Því fannst okkur tilvalið að efna til samtals sem flestra sem að málefninu koma,“ segir Árni Guðmundsson, aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði, um Tómstundadaginn sem haldinn verður 8. mars í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Stakkahlíð.
Sjá nánar: Umfjöllun um málþingið í Mannlega þættinum á RÚV
Yfirskrift málþingsins að þessu sinni er „Eldri borgarar: Valdefling – Virkni – Lífsgæði“ og samanstendur dagskráin af erindum frá eldri borgurum, fagfólki á vettvangi, fræðimönnum og háskólanemum.
Tómstundadagurinn er nú haldinn fimmta árið í röð. Hann er árlegur viðburður námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Ár hvert er deginum valið sérstakt viðfangsefni og hefur m.a. verið fjallað um einelti og leiðir til að sporna gegn því og tækni í tómstundastarfi. Markmið Tómstundadagsins er að styðja við samtal fags og fræða um málefni líðandi stundar á vettvangi tómstunda- og félagsmála.
Í ár eru það námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og Landssamband eldri borgara sem standa sameiginlega að viðburðinum. Að lokinni dagskrá verður haldið útgáfuhóf í tilefni af útgáfu fyrsta orðasafns í tómstundafræði á Íslandi. Í safninu má finna lykilhugtök sem tengjast æskulýðsmálum, frístundum og tómstundafræði.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.