Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, og Susan Rafik Hama, doktorsnemi við sama svið
Hópur flóttafólks frá Sýrlandi kom til Íslands árið 2016 og settist að í þremur sveitarfélögum. Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið, og Susan Rafik Hama, doktorsnemi á sama sviði, rannsaka reynslu þessa hóps af leik- og grunnskólum hér á landi og reynslu kennara og skólastjórnenda af móttöku og skólagöngu hópsins.
Kveikjuna að rannsókninni segir Hanna hafa verið skort á þekkingu um reynslu flóttabarna af íslenska skólakerfinu. „Mig persónulega langaði að vita hvað reyndi á, hvort þjónustan væri nógu góð fyrir þau, hvort reynslan væri önnur en hjá öðrum börnum sem hafa flutt hingað og hvort það væru einhverjar sérstakar þarfir eða óskir sem við þyrftum að uppfylla hjá þessum hópi,“ segir Hanna. Aðstæður hafi kallað á rannsóknir á því hversu vel í stakk búið íslenska menntakerfið væri til að taka á móti slíkum hópum svo hægt sé að stuðla að umbótum. „Þarna var svið sem við vissum lítið um og þurfti að bæta úr því,“ segir hún.
Hanna hefur áður unnið ýmsar rannsóknir á því hvernig menntakerfið hefur reynst börnum innflytjenda en hún og Susan vildu vita hvað væri sérstakt við þennan hóp, hvað skólarnir og menntakerfið í heild þyrftu að gera til að koma til móts við hann. Sumir skólanna í rannsókninni höfðu aldrei haft börn flóttafólks áður sem oftar en ekki hafa misst mörg ár úr skóla og lent í ýmsum áföllum. Aðrir skólar voru vanari fólki af ýmsu þjóðerni en þær telja að fræðsla um fjölbreytta nemendahópa þyrfti að vera almennari til kennara.
Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræðum við Menntavísindasvið, og Susan Rafik Hama, doktorsnemi á sama sviði, rannsaka reynslu flóttabarna sem komu hingað til lands árið 2016 af leik- og grunnskólum hér á landi og reynslu kennara og skólastjórnenda af móttöku og skólagöngu hópsins.
Foreldrarnir ekki vel upplýstir um skólastarf
Susan starfaði hjá Rauða krossinum árið 2016 sem verkefnisstjóri kvótaflóttamanna þegar hópurinn kom til landsins. Hún segir margt sem foreldrarnir viti ekki um íslenskt samfélag og þar af leiðandi skólakerfið. Menningarmunurinn sé svo mikill. Nauðsynlegt sé að skoða hvað við getum gert betur til að upplýsa foreldrana. „Við verðum að bjóða þeim að taka þátt í skólastarfinu því það er nauðsynlegt að foreldrarnir skilji að menntun er ekki bara hlutverk kennarans. Það eru ekki bara einn eða tveir einstaklingar sem bera ábyrgðina á menntun barna þeirra heldur samfélagið allt,“ segir hún. Foreldrarnir hafi líka áhyggjur af því að börnin læri ekki tungumálið þar sem hér tíðkist að börn klári heimavinnu sína í skólanum. Þeir sjái
heldur ekki framfarir barnanna í tungumálinu þar sem þau tali það ekki heima.
Hanna og Susan hafa nú þegar rætt við foreldra, kennara og skólastjórnendur um upplifun og reynslu þeirra en ekki börnin sjálf. Í framtíðinni sjá þær fram á að taka viðtöl við börnin en telja það ótímabært þar sem þau séu að upplifa erfiðar aðstæður og mörg hafi jafnvel lent í erfiðum áföllum eins og áður hefur komið fram.
Höfundur greinar: Fanney Hólmfríður Kristjánsdóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands