Vel á annað hundrað erindi á Þjóðarspeglinum á föstudag
Netglæpir á Íslandi, ferðaþjónusta sem skapandi grein, fötlun fyrir tíma fötlunar, tengsl EVE Online og raunsamfélagsins, kynjuð hlutverk áfengis í sögum ungs fólks af skemmtanamenningu á Íslandi, kynheilbrigði í nútímasamfélagi, virði þess að vera í kjörþyngd og börn sem aðstandendur foreldra sem fá krabbamein er aðeins brot af þeim viðfangsefnum sem verða til umfjöllunar á á Þjóðarspeglinum: Ráðstefnu í félagsvísindum sem fram fer í Háskóla Íslands föstudaginn 26. október kl. 9-17.
Þjóðarspegillinn hefur fyrir löngu unnið sér sess sem stærsta ráðstefna hvers árs á sviði félagsvísinda í Háskóla Íslands en hún fer nú fram í 19. sinn. Fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands og meistara- og doktorsnemar við skólann kynna rannsóknir sínar í um 45 málstofum sem fara fram víða um háskólasvæðið en alls eru erindin á ráðstefnunni í kringum 170 talsins.
Rannsóknirnar sem kynntar verða á Þjóðarspeglinum snerta félagsvísindi í sinni breiðustu mynd, þar á meðal félagsfræði, mannfræði, þjóðfræði, félagsráðgjöf, hagfræði, viðskiptafræði, markaðsfræði, lögfræði, stjórnmálafræði og kynjafræði. Rætt verður m.a. um álag og átök í starfsumhverfi kennara, blaðamennsku á tímamótum, afleiðingar ofbeldis og forvarnir gegn því, stöðu innflytjenda á Íslandi, sjálfbærni og umhverfismál í sunnanverðri Afríku, tilfinningavanda barna, nýsköpun og viðskiptaþróun, hversdagshefðir, fæðingarorlof og kynjahlutverk á Íslandi og Spáni og svo ótalmargt fleira. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi á ráðstefnunni.
Ókeypis er á allar málstofur á Þjóðarspeglinum og ráðstefnan er öllum opin.