Samstarf um rannsóknarmiðstöð um blágrænar regnvatnslausnir
Fulltrúar Háskóla Íslands, Garðabæjar, Urriðaholts ehf. og Veðurstofu Íslands undirrituðu í dag samstarfssamning um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna. Samkvæmt samningnum verður sett upp hátækniveðurstöð í Urriðaholti í Garðabæ. Ráðgjafarfyrirtækin Alta og Veðurvaktin hafa jafnframt komið að mótun, skipulagi og undirbúningi rannsóknarmiðstöðvarinnar.
Blágrænu regnvatnslausnunum er beitt til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap. Markmiðið er margþætt og felur m.a. í sér auðveldara og ódýrara viðhald fráveitukerfa, lengri líftíma þeirra og síðast en ekki síst ávinninginn sem felst í að hleypa vatni og gæðum þess aftur inn í hið byggða umhverfi á öruggan og markvissan hátt.
Byggð umhverfis Urriðavatn er að hluta innan vatnasviðs þess. Til að koma í veg fyrir að vatnsbúskapur svæðisins raskist vegna byggðarinnar er ofanvatn frá henni meðhöndlað til að líkja eftir ferlum náttúrunnar. Í Urriðaholti var í fyrsta sinn á Íslandi beitt slíkum sjálfbærum ofanvatnslausnum í heilu hverfi. Regnvatni og snjó af þökum, götum og bílastæðum er beint í ofanvatnsrásir sem eru meðfram götum og/eða til safnlauta í grænum geirum. Þar sígur vatnið í jörðu og berst til Urriðavatns og votlendisins.
Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem blágrænar regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Lausnin hefur ekki verið nýtt á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla áður og hefur innleiðing þess vakið athygli á alþjóðavettvangi. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholt sem vettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innanlands sem utan.
Háskóli Íslands, undir stjórn Hrundar Andradóttur, prófessors í umhverfisverkfræði, hefur hlotið þriggja ára styrk frá Rannsóknasjóði Rannís til rannsókna á sjálfbærri regnvatnsstjórnun í köldu loftslagi og mun nýta Urriðaholt sem lifandi tilraunastofu.
Ávinningurinn af uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar
1. Uppbygging innviða til rannsókna, s.s. tækja og aðstöðu fyrir rannsakendur, m.a. á hátækniveðurstöð og mælitækjum henni tengdri sem sett verður upp í Urriðaholti. Stöðin og búnaður henni tengdur eru einstök á landsvísu. Þar má m.a. finna í fyrsta sinn á Íslandi sérhæfð tæki til mælinga vegna sjálfbærra regnvatnslausna svo og á úrkomu á einnar mínútu fresti.
2. Vísindalegar rannsóknir á virkni sjálfbærra regnvatnslausna. Þörfin fyrir blágrænar regnvatnslausnir, hérlendis jafnt sem erlendis, eykst hratt m.a. vegna áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þær auka seiglu bæja til að takast á við loftslagsbreytingar, hreinsa vötn, ár og læki, grænka borgir og auka líffræðilegan fjölbreytileika þeirra. Síðast en ekki síst sýnir reynslan að þær eru hagkvæmari en þær hefðbundnu.
3. Langtímavöktun á veðurfari sem felur í sér þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun, t.d. regn, hita, sólarorku og snjóalög.
4. Miðlun nákvæmra veðurfarsgagna til þeirra rannsakenda sem áhuga slíkum gögnum af höfuðborgarsvæðinu. Einnig til nemenda og íbúa í Urriðaholti og áhugasamra aðila almennt.