Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild
Ég ólst upp í sjávarþorpi og þar snerist allt um sjávarútveg. Faðir minn var brautryðjandi Hornfirðinga í humarveiðum og ég var til sjós nokkrar vertíðir með honum frá Höfn. Ég var um tíu ára þegar ég hóf að vinna í fiski í Neskaupstað. Ég hef haft mikinn áhuga á að nýta allt sem veiðist og ganga vel um auðlindina okkar. Efnaog eðlisfræðin hefur alltaf staðið mér nærri og því eðlilegt að ég nýtti mér þennan áhuga í ævistarfið.“
Svona lýsir Sigurjón Arason, prófessor í matvælaverkfræði, neistanum sem kveikti bálið. Brennandi áhugi hans á sjávarútvegi hefur verið aflvakinn í nýsköpun í einni mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga. Sigurjón er býsna kvikur maður og síbrosandi og það kemur því ekkert á óvart að hann sé afar afkastamikill vísindamaður. Reyndar er hann ótrúlega kröftugur þegar kemur að nýsköpun í sjávarútvegsgeiranum. Verkefnin sem hann hefur unnið eru nánast óteljandi en þau hafa nær öll skilað bættum búnaði eða betri lausnum í sjávarútvegi og aukið þannig hag greinarinnar.
Sigurjón vinnur sjaldnast einn. Hann hefur lagt kapp á að starfa mjög náið með fyrirtækjum í veiðum og framleiðslu og aðilum sem þróa tæki og hátæknibúnað til vinnslu sjávarafurða. Þá hefur hann lagt kapp á að nemendur taki þátt í rannsóknum en hann hefur leiðbeint fjölda meistaraog doktorsnema í gegnum tíðina. Sigurjón er á því að grunnrannsóknir eigi að vera undanfari tæknilegrar þróunar í atvinnulífinu til að draga úr mistökum og flýta framförum, ekki bara í sjávarútvegi heldur öllum atvinnugreinum.
„Þetta á við um vöruþróun og hönnun á nýjum vinnsluferlum,“ segir Sigurjón. „Þannig tryggjum við stöðugleika og rétta eiginleika vöru auk þess sem við bætum nýtingu á auðlindunum. Með auknu samspili atvinnulífsins við rannsóknir í námi verða þátttakendur þar meðvitaðri um mikilvægi rannsóknanna og sá áhugi smitast til stjórnvalda. Það er afar áríðandi að atvinnulífið taki virkan þátt í rannsóknum á háskólastigi. Þannig fá bæði nemendur og vísindasamfélagið mikilvæg og raunhæf rannsóknarverkefni sem er mikil áskorun að leysa. Vandamál úr hagnýtum rannsóknarverkefnum breytast síðan í framtíðarlausnir í atvinnulífinu. Rannsóknir á háskólastigi og atvinnulífið eiga þannig samleið og vísindin eru því hvatning fyrir báða aðila.“
Sigurjón Arason
Það er afar áríðandi að atvinnulífið taki virkan þátt í rannsóknum á háskólastigi.
Ótrúlegur fjöldi nýsköpunarverkefna
Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl, sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna. Þá hefur hann stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti, unnið að bættri meðhöndlun afla og bættu geymsluþoli fisks, bætt stýringu á veiðum og notkun veiðarfæra. Enn fremur hefur hann fundið leiðir til að nýta betur aukaafurðir úr hráefnum sem jafnvel var hent en undir þetta falla fiskinnyfli, lifur, svil, hausar, hryggir, sundmagi og roð sem breytt var í verðmætar afurðir. Hér er fátt eitt talið.
Þegar kemur að því að ræða þá fjármuni sem þessar rannsóknir Sigurjóns og samstarfsmanna hafa skilað verður hann þögull um stund en segir svo. „Það er svo erfitt að meta svona rannsóknir í beinhörðum peningum en maður gæti samt ætlað að talan hundrað milljarðar sé ekki fjarri lagi þegar allt er talið. Árangurinn er ekki eins manns, hann hefur náðst með góðu samstarfi á milli atvinnugreinarinnar, vísindaumhverfisins og fjármögnunaraðila, bæði innlendra og erlendra. Stjórnvöld hér mættu hins vegar fjármagna rannsóknir miklu betur en nú er gert því það skilar sér margfalt til baka.“
Sigurjón er ekki bara vísindamaður, hann er líka mjög virtur kennari. Hann hefur stærstan hluta ferilsins unnið hjá Matís og við Háskóla Íslands sem hann telur einn af hornsteinum samfélagsins. „Ef við ætlum okkur til framtíðar að vera í forystu í sjávarútvegsfræðum, norðurslóðarannsóknum og nýtingu hreinnar orku þá þarf Háskólinn og ekki síst rannsóknir innan hans að eflast til muna. Tilkoma framhaldsnáms við Háskóla Íslands fyrir um 15 árum hefur haft gríðarlega mikil og jákvæð áhrif á allt þjóðfélagið. Við þurfum að byggja ofan á það.“
Makríl breytt í milljarða
Veiðar á makríl í umtalsverðu magni við Íslandsstrendur hófust fyrir tæpum áratug. Makríllinn gengur inn í íslenska lögsögu í fæðisleit, en yfir sumarið safnar hann hér forða fyrir veturinn. „Þessi mikla fitusöfnun veldur því að fiskholdið verður mjög laust í sér,“ segir Sigurjón. „Fyrstu árin fór stærsti hluti aflans því í fiskmjöls- og lýsisvinnslu en aðeins lítill hluti hans fór til manneldis. Þess vegna var nauðsynlegt að rannsaka og þróa nýja geymsluaðferð fyrir ferskan makríl til að koma honum í vinnsluhæfu ástandi í land. Til að styrkja samningsstöðu við aðrar þjóðir varðandi hlut í veiðikvóta var mikið kappsmál að okkur tækist að láta sem stærstan hluta af veiðinni fara til manneldis þótt aðrar þjóðir teldu það ómögulegt vegna bráðfitunar makrílsins sem orsakaði mjög mikið los.“
Sigurjón segir að makríllinn sé fullur af rauðátu sem hafi mjög virkt ensím og þess vegna sé hætta á því að ensímin brjóti magann og þunnildin niður og geri hann óhæfan til manneldis og eins væri mikilvægt að gera hann stífan.
„Til að auka verðmæti aflans þurfti að nýta stærri hluta makrílsins til manneldis og til að svo gæti orðið var mikilvægt að bæta geymsluþol makríls um borð í veiðiskipum.“
Sigurjón og samstarfsmenn hans fundu leiðir til að hraðkæla og ofurkæla makrílinn niður í mínus eina til mínus tvær gráður en þá hægðist á niðurbroti ensíma og hluti fitunnar storknaði sem gerði makrílinn betur hæfan til flutnings og vinnslu. Með þessu jukust verðmæti afurðanna um marga milljarða að sögn Sigurjóns.
„Eftir vinnslu makríls var mikilvægt að rannsaka geymsluþol frystra makrílafurða úr veiddum afla á Íslandsmiðum við mismunandi frystitækni, hitastig og hitasveiflu í geymslu og flutningi. Þróun vinnslubúnaðar og tæknilausna til að geta unnið þennan viðkvæma fisk í frystar vörur og finna markaði fyrir þessar vörur var mikil áskorun og tókst ótrúlega vel. Þennan árangur má að miklu leyti þakka góðu samstarfi sjávarútvegs-, markaðs- og tæknifyrirtækja og nánu samstarfi þessara aðila við okkur í þekkingar- og vísindasamfélaginu.“