HÍ aðili að alþjóðasamtökum háskóla
Háskóli Íslands gerðist nýverið aðili að samtökunum International Association of Unversities (IAU) sem eru leiðandi samtök háskólastofnana á heimsvísu. Yfir 650 háskólar í yfir 130 löndum eru aðilar að samtökunum sem voru stofnuð árið 1950. Margir af samstarfsskólum Háskólans eru meðlimir í IAU, m.a. háskólar á Norðurlöndunum.
Markmið samtakanna er að stuðla að meiri samvinnu, þekkingarsköpun og miðlun þekkingar meðal háskólanna. IAU skapar vettvang fyrir aðildarskóla til að ræða og vinna að sameiginlegum forgangsmálum sem varða æðri menntun. Samtökin leggja einnig áherslu á akademískt frelsi, sjálfstæði háskóla auk fjölbreytileika og samfélagslega ábyrgð. Starfi IAU má skipta í fjögur þemu: forystu, alþjóðavæðingu, sjálfbæra þróun og upplýsingatækni. IAU gefur m.a. út ýmislegt efni og heldur úti víðtækum gagnagrunni um háskóla sem meðlimir hafa aðgang að.
Samtökin starfa undir hatti Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO og aðsetur þeirra er í höfuðstöðvum UNESCO í París. Pam Fredman, rektor Gautaborgarháskóla, er forseti samtakanna og gegnir því embætti til ársins 2020. Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, er tengiliður Háskóla Íslands við IAU.