Hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi lokaverkefni
Gunnhildur Halla Carr hlaut nýverið viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni til B.Ed.-prófs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ritgerð Gunnhildar Höllu ber heitið: Að vita bæði í þennan heim og annan. Um bókmenntakennslu á vorum dögum og naut hún leiðsagnar Kristjáns Jóhanns Jónssonar, dósents við Kennaradeild. Alls voru sjö ritgerðir tilnefndar.
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Titill ritgerðarinnar er orðaleikur, andstæða við klausuna „að vita hvorki í þennan heim né annan“ og vísar til þess margbrotna heims sem við nútímamanninum blasir. Til grundvallar liggur sterkur áhugi á fjölmenningu og fjallað er um það hvernig bókmenntakennsla getur orðið að leiðarljósi, byggt upp víðsýni og brugðist við þeirri fjölbreytni sem fylgir nútímanum. Gunnhildur Halla hefur lagt mikla vinnu í að greina og skilja fræðileg hugtök, dýpka skilning sinn á tilbrigðum mannlífsins og setja fram mótaðar skoðanir á gagnsemi bókmenntakennslu. Þær unglingabókmenntir sem teknar eru til greiningar verða skýr og góð dæmi í meðförum Gunnhildar Höllu.“
Enn fremur segir í umsögn dómnefndar að ritgerðarefni Gunnhildar Höllu minni okkur á hve nauðsynlegt sé að hugleiða kennaramenntun í ljósi menningar og samfélags.
Viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn við Háskóla Íslands þann 23. júní síðastliðinn.
Um Minningarsjóð Ásgeirs S. Björnssonar
Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar var stofnaður til minningar um Ásgeir sem var lektor í íslensku við Kennaraháskólann um árabil. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 1989. Markmið sjóðsins er að efla ritsmíð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi B.Ed.-, BS- og BA-verkefni. Stjórn sjóðsins skipa: Halldóra Jónsdóttir verkefnisstjóri, Kristín Lilliendahl lektor, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Sigurður Konráðsson prófessor sem jafnframt er formaður stjórnar.