Meyvant og Steingerður nýir ritstjórar Netlu
„Ritstjórastarfið leggst mjög vel í mig. Netla er sterkur vettvangur fyrir fræðilegar greinar um þau fjölbreyttu fagsvið sem tengjast menntavísindum og það er mjög áhugavert að fá að taka þátt í að móta tímaritið,“ segir Steingerður Ólafsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem tók nýverið við starfi ritstjóra Netlu ásamt Meyvanti Þórólfssyni, dósent við sama svið. Meyvant tekur í sama streng og segist fagna því að fá að kynnast verkefni af þessu tagi, en tekur samt fram að í því felist töluverð áskorun, meðal annars með hliðsjón af stigamatskerfi akademískra starfsmanna og fleira.
Tímaritið er gefið út rafrænt og birtir greinar og annað efni jafnóðum og það liggur fyrir. Steingerður segir innihald tímaritsins afar fjölbreytt og þar af leiðandi nái það til breiðs lesendahóps en þar er fyrst og fremst að finna fræðilegar greinar um uppeldi og menntun. Meyvant bætir við að þegar Netla var stofnuð fyrir fimmtán árum hafi hún verið kynnt sem vefrit með þeim möguleikum sem vefmiðlar hafa upp á að bjóða. „Auk þess birtir Netla reglulega svonefnd sérrit tengd ákveðnum þemum ætluð mismunandi markhópum frá einum tíma til annars.“
Aðspurð um hvort að lesendur megi eiga von á breytingum á tímaritinu á næstunni segja þau að fram undan sé vinna við stefnumótun. „Við viljum gjarnan nýta tækifærið og bjóða þeim sem þetta lesa að senda okkur ábendingar í þessum efnum,“ segja þau enn fremur.
Hvorugt þeirra hefur verið í hlutverki ritstjóra áður en bæði hafa víðtæka reynslu af ritstörfum. „Öll ritstörf eru auðvitað góður grunnur. Ég hef reynslu af fræðilegum ritstörfum en líka blaðamennsku. Auk þess hef ég verið í ritstjórn sérrits Netlu og ritrýnt greinar fyrir erlend og íslensk fræðitímarit,“ lýsir Steingerður. Meyvant hefur svipaða sögu að segja en hann hefur komið að ritstjórn sérrita á Menntavísindasviði og á vegum fagfélaga.
Menntavísindasvið þakkar fráfarandi ritstjóra, Ásgrími Angantýssyni, dósent, fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar.
Um Netlu
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun var stofnað við Kennaraháskóla Íslands árið 2002. Tímaritið er bæði ætlað fræðimönnum á sviði uppeldis og menntunar og skólafólki almennt. Í samræmi við það eru birtar fræðilegar greinar á íslensku og ensku og líka frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl og ritfregnir, auk ritdóma um uppeldis- og menntamál. Ritstjórn hefur verið í höndum akademískra starfsmanna Menntavísindasviðs.