Nemendur í nærmynd: Stefnir á að fjölga skátum
Heldur óvænt tíðindi bárust úr heimi skátahreyfingarinnar í síðasta mánuði þegar hin 23 ára gamla Marta Magnúsdóttir var kjörin skátahöfðingi Bandalags íslenskra skáta. Marta er yngsti skátahöfðingi BÍS frá upphafi en hún leggur stund á nám í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands samhliða starfinu.
Marta er fædd og uppalin á Grundarfirði og hefur tekið þátt í skátahreyfingunni frá fimmtán ára aldri. Hún segir áhugann á uppeldis- og menntunarfræði megi að stórum hluta rekja til þátttöku í skátastarfi þar sem aðaláherslan er á að þátttakendur starfi saman og vinni verkefni á jafningjagrundvelli. „Lengi vel var ég ákveðin í því að fara ekki í háskólanám fyrr en ég vissi að það væri eitthvað í boði sem ég hafði ósvikinn áhuga á að læra. Sá á kvölina sem á völina, eins og sagt er, og ég renndi vel í gegnum þær ótal námsleiðir sem í boði eru við Háskóla Íslands. Ég staðnæmdist við uppeldis- og menntunarfræði, skoðaði kennsluskrána og skráði mig í námið og valdi viðskiptafræði sem aukagrein,“ segir Marta um námsvalið en hún stefnir á að ljúka BA-gráðu í uppeldis- og menntunarfræði síðar á árinu.
Skemmst er frá því að segja að námið hefur nýst Mörtu vel í skátastarfinu. „Auðvitað misvel því í sumum námskeiðum hef ég lítið tengt námsefnið út fyrir eigið nám, hvernig ég geti í raun og veru nýtt mér upplýsingarnar í verki. En það er að lokum á mína ábyrgð hvernig ég læri og nýti þá þekkingu sem ég hlýt í náminu. Nú á lokametrunum finn ég að það er margt að smella betur saman og grunnþekking, t.d. úr fyrsta árs námskeiðum, er að koma að verulegu gagni. Það er mín upplifun að eftir því sem líður á námið verða námskeiðin fjölbreyttari og bjóða upp á meiri möguleika og tengingar út fyrir kennslustofuna.“
Marta hyggst vinna lokaverkefni sitt í sumar og er nú þegar farin að huga að efnistökum. „Ég mun útskrifast með mikið af valeiningum, m.a. úr skiptinámi sem ég mæli heilshugar með. Hugmyndin er að skrifa um kennslufyrirkomulag á háskólastigi og hvernig stuðla megi að virkri þátttöku háskólanema í kennslustundum. Efnið fellur vel að því sem ég fæst við dagsdaglega í skátunum en þar er virk þátttaka og athafnanám okkar leiðarvísir.“
Það stendur ekki á svari hjá skátahöfðingjanum þegar spurt er út í hennar framtíðarsýn. „Að fjölga skátum á Íslandi á öllum aldri. Skátastarf er svarið við svo mörgu og það er ævintýri líkast að fylgjast með árangrinum þegar vel heppnast til.“
Þess má geta að Marta heldur úti virkri Facebook-síðu þar sem áhugasamir geta fylgst með störfum hennar.