Skip to main content
8. febrúar 2017

Stórauka þarf vægi orðaforða í námi

""

Ný fundaröð um PISA á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Menntamálastofnunar hefst á morgun, fimmtudaginn 9. febrúar. Fyrsti fundurinn verður helgaður umræðu um lesskilning íslenskra nemenda en þar munu Sigríður Ólafsdóttir nýdoktor, Baldur Sigurðsson dósent, og Steinunn Torfadóttir lektor, öll við Menntavísindasvið, flytja erindi. 

„Þegar prófið var fyrst lagt fyrir árið 2000 var frammistaða íslenskra þátttakenda að jafnaði sambærileg OECD-meðaltali. Síðan hefur meðalstigafjöldi íslenskra unglinga lækkað sem nemur rúmlega hálfu skólaári. Ekkert land lækkar meira en Ísland á þessu tímabili. Ísland er nú neðst allra norrænu ríkjanna,“ segir Sigríður Ólafsdóttir um þróunina en með lesskilningi er átt við getu nemenda til að nýta sér ritaðar upplýsingar í daglegu lífi til að geta uppfyllt persónulegar, samfélagslegar og menntunarlegar þarfir sínar. „Þá hefur afturförin verið stöðug á höfuðborgarsvæðinu í fimmtán ár en á landsbyggðinni kemur hún ekki skýrt fram fyrr en árið 2009.“

Sigríður segir hrakandi frammistöðu í lesskilningi íslenskra ungmenna einnig koma fram í hækkandi hlutfalli þeirra sem lenda á allra neðstu hæfniþrepunum. „Niðurstöður 2015 sýna að 22% ungmenna hér á landi ráða aðeins við spurningar sem kalla á svör sem eru skýrt fram sett í texta og teljast því með mjög slakan lesskilning. Þau geta til dæmis ekki túlkað lesinn texta, dregið fram meginatriðin né tengt saman ýmsa hluta textans.“ 

Lestur gæðatexta besta leiðin til að auka orðaforða

Aðspurð hverjar séu mögulegar skýringar á slakri frammistöðu íslenskra ungmenna í lesskilningi vísar hún meðal annars í rannsókn Freyju Birgisdóttur, lektors við Heilbrigðisvísindasvið. „Freyja komst að því að sterkustu skýringu á slakri frammistöðu íslenskra ungmenna á PISA 2012 gaf orðaforði nemenda sem hún mældi með íslensku orðaforðaprófi. Skýr tengsl orðaforða og lesskilnings hafa komið fram í fjölmörgum rannsóknum. Ef of mörg orð í texta eru lesanda framandi lendir hann í vandræðum og nær ekki að vinna frekar með efnið. Langbesta leiðin til að auka orðaforða er lestur bóka, eða gæðatexta af skjá, en tæp 60% íslensku þátttakendanna á lægstu hæfniþrepunum sögðust aldrei lesa sér til ánægju,“ útskýrir hún. Þá sé nokkuð ljóst að magn afþreyingar eykst stöðugt og þar á meðal ýmiss konar efnis á ensku. Hugsanlega er enskukunnátta almennt að aukast á kostnað íslenskunnar.

En hvernig er hægt að snúa þessari þróun við? „Rannsóknir sýna að nemendur með lítinn orðaforða geta haft mikið gagn af markvissum stuðningi, en sé slíkt ekki í boði hættir þeim til að dragast stöðugt aftur úr. Því þarf að auka vægi orðaforða í námi í öllum námsgreinum. Það er ekki nóg að orðin birtist í lesnum texta heldur þarf að gefa nemendunum tækifæri til að nota orðin sjálfir í tali og ritun.“

Styrkja þarf framleiðslu á íslensku efni

Sigríður segir það enn fremur nauðsynlegt að efla færni nemenda í að beita margs konar lesskilningsaðferðum. „Það er tæplega hægt að búast við að nemendur geti almennt unnið með lesinn texta á flókinn hátt á PISA-prófum ef þeir hafa ekki fengið reglulega þjálfun í þess háttar vinnubrögðum. Við verðum líka að stórauka framleiðslu á íslensku efni, styrkja þróun tungutækni á íslensku svo íslenska verði gjaldgeng í samskiptum við snjalltæki, hugbúnað og að íslenskt viðmót sé sjálfgefið í hugbúnaði sem seldur er hér á landi,“ segir Sigríður að lokum og hvetur allt áhugafólk um menntamál að fjölmenna á fundinn.

Nánar um fundaröðina

Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor
Sigríður Ólafsdóttir, nýdoktor