Tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Tvö verkefni, sem nemendur við Háskóla Íslands unnu að, eru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Tilkynnt var um tilnefningarnar í dag.
Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf í sumarvinnu við úrlausn verkefna fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Stjórn sjóðsins hefur valið fimm öndvegisverkefni sem unnin voru sumarið 2016 en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir Nýsköpunarverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 31. janúar nk.
Fram kemur í tilkynningu frá Rannís, sem heldur utan um verðlaunin og Nýsköpunarsjóð námsmanna, að verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni nú eigi það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til.
Sem fyrr segir eru tvö verkefni nemenda við Háskóla Íslands tilnefnd til verðlaunanna, „Áhættureiknir við meðhöndlun sjúklinga með mergæxli“ og „Ræktun smáþörunga, nýr íslenskur hátækniiðnaður“
Reiknir aðstoðar við ákvörðun um meðferð við mergæxli
Að fyrrnefnda verkefninu stendur Sölvi Rögnvaldsson, BS-nemi í hagnýttri stærðfræði, í nánu samstarfi við Ingigerði Sólveigu Sverrisdóttur, lækni og doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands sem stundar rannsóknir á fylgisjúkdómum sjúklinga með mergæxli. Leiðbeinendur voru Sigrún Helga Lund, dósent í líftölfræði, og Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands.
„Áhættureiknir við meðhöndlun sjúklinga með mergæxli er tölfræðilíkan sem aðstoðar lækna við að ákvarða meðferð sjúklinga með mergæxli, sem er alvarlegt krabbamein í beinmerg. Líkanið notar upplýsingar um aldur, kyn og fyrirliggjandi sjúkdóma til að meta horfur sjúklingsins og hefur betra forspárgildi en sá áhættureiknir sem nú er notaður í blóðlækningum.
Við þróun áhættureiknisins var notað umfangsmikið gagnasafn sem er einstakt á heimsvísu. Gögnin innihalda upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og lifun ríflega 13.000 sænskra mergæxlissjúklinga á árunum 1985-2013.
Til að gera áhættureikninn aðgengilegan blóðmeinasérfræðingum var útbúin vefsíða og iPhone smáforrit og stefnan er að koma áhættureikninum í notkun um allan heim. Aðferðafræðina sem þróuð var í verkefninu mætti enn fremur nota til að smíða áhættureikna fyrir aðra sjúkdóma,“ segir í umsögn um verkefnið.
Stuðlað að fæðuöryggi til framtíðar
Að síðarnefnda verkefninu, „Ræktun smáþörunga, nýr íslenskur hátækniiðnaður” standa þau Bergþór Traustason, nemandi í verkfræðilegri eðlisfræði, og Tryggvi E. Mathiesen og Unnur Elísabet Stefánsdóttir sem bæði stunda nám í matvælafræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur verkefnisins voru þeir Gissur Örlygsson og Kristján Leósson, sem starfa hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og Halla Jónsdóttir, yfirmaður rannsókna og þróunar, Sigurbjörn Einarsson líffræðingur og Sjöfn Sigurgísladóttir framkvæmdastjóri, öll hjá Keynatura.
„Verkefnið átti þátt í því að auka vöxt smáþörunga verulega og lágmarka raforkunotkun. Tilraunir voru gerðar á næringarsamsetningum, ljósgjöfum og lögun kerfanna með það markmið að hámarka vaxtarhraða þörungsins. Ásamt þessu voru umhverfisáhrif framleiðslunnar skoðuð og borin saman við hefðbundna próteinframleiðslu.
Ræktunarkerfin notast við áttfalt minna landsvæði en nú þekkist í þörungaræktun og endurnýtir megnið af því vatni sem notað er til framleiðslunnar. Hér er orðin til hagstæð leið til að stuðla að fæðuöryggi til framtíðar án þess að fórna náttúruauðlindum eða landsvæði.
Niðurstöður verkefnisins sýna að umhverfisáhrif framleiðslunnar eru nær eingöngu jákvæð en framleiðslan bindur CO2 og skilar frá sér súrefni. Þörungar eru vannýtt uppspretta næringarefna sem hægt er að framleiða á hagkvæman hátt á Íslandi með nýtingu þeirra auðlinda sem hér er að finna. Hreint vatn og græn raforka er undirstaða framleiðslunnar sem felur í sér ræktun grænþörunga til framleiðslu próteina, fitu og andoxunarefna.
Verkefnið var unnið í samstarfi við líftæknifyrirtækið Keynatura og gekk út á að hámarka einstaka þætti í þörungaræktunarkerfum sem eru í þróun hjá fyrirtækinu,“ segir í umsögn um verkefnið.
Auk þessara tveggja verkefna frá Háskóla Íslands eru verkefnin „Framköllun fælniviðbragðs með sýndarveruleika“ og „Kortlagning taugabrauta sameinuð þrívíddarmódelum til stuðnings við undirbúning heilaskurðaðgerða“, sem nemendur við Háskólann í Reykjavík unnu, og „Hulda: Hljóð- og ljósskúlptúr“, sem nemandi við Listaháskóla Íslands vann, tilnefnd til verðlaunanna.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og annað sinn. Þess má geta að nemendur við Háskóla Íslands hafa hlotið verðlaunin síðustu tvö ár.
Við þetta má bæta að Nýsköpunarsjóður námsmanna auglýsir nú eftir styrkjum til sumarvinnu til rannsókna og nýsköpunar fyrir sumarið 2017 og rennur umsóknarfrestur út 10. febrúar.