Á leið til dvalar við Minnesota-háskóla
Þrír nemendur við Háskóla Íslands halda til námsdvalar við Minnesota-háskóla (University of Minnesota) í Bandaríkjunum á vormisseri 2017 og tveir nemendur Minnesota-háskóla hafa dvalið hér í vetur við nám fyrir tilstilli samstarfssamnings háskólanna. Endurnýjun á samningnum er fyrirhuguð á næsta ári.
Samstarf Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla spannar hátt á fjórða áratug og hafa skólarnir átt víðtækt samstarf, m.a. um stúdenta-, kennara- og starfsmannaskipti ásamt öflugu rannsóknasamstarfi. Á næsta ári verður haldið upp á 35 ára samstarfsafmæli skólanna og er von á rektor Minnesota-háskóla í heimsókn lok maí 2017 þar sem stefnt er að því að undirritaður verði áframhaldandi samningur um samstarf og stúdentaskipti.
Þrír nemendur við Háskóla Íslands, Elín Broddadóttir, MA-nemi í þróunarfræði, Marta Magnúsdóttir, BA-nemi í uppeldis- og menntunarfræði, og Berglind Höskuldsdóttir, BS-nemi í vélaverkfræði, halda til námsdvalar við Minnesota-háskóla á vormisseri fyrir tilstilli samstarfssamnings háskólanna. Í vetur stunda enn fremur tveir nemendur Minnesota-háskóla nám við Háskóla Íslands. Það eru þær Ellis Bea Wylie, sem er nemandi í íslensku sem annað mál, og Kaija Evangeline Warner, nemandi í stjórnmálafræði.
Elín og Marta hlutu einnig styrk frá styrktarsjóði Val Bjornson Icelandic Exchange Scholarship Fund til fararinnar. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornsons, fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota (1906–1987). Hann var af íslensku bergi brotinn, einstakur ættjarðarvinur og var ákaflega annt um íslenska námsmenn í Minnesota. Sjóðurinn hefur notið mikils stuðnings vesturíslenska samfélagsins í Minnesota en í fararbroddi þess hafa verið Örn Arnar, ræðismaður Íslands, og Hekluklúbburinn, Íslendingafélag sem starfað hefur óslitið frá árinu 1925.
Hér á landi er starfandi Hollvinafélag fyrrverandi nemenda Minnesota-háskóla á Íslandi. Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands, er formaður félagsins en hún er ein þeirra sem notið hafa styrks úr styrktarsjóði Val Bjornsons og hlaut fyrr á þessu ári viðurkenningu hollvinasamtaka Mennta- og starfsþróunardeildar Minnesota-háskóla, „Rising Alumni Award“, fyrir árangur á starfsferli og leiðtogahæfni.
Við þetta má bæta að umsóknarfrestur fyrir nám og styrk til dvalar við Minnesota-háskóla skólaárið 2017-2018 er 16. janúar 2017. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Skrifstofu alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands.