1. febrúar 2016
Opnir fundir um starfsemi framhaldsskóla
Rannsóknir í framhaldsskólum er viðfangsefni fundaraðar sem Námsbraut um kennslu í framhaldsskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs við Háskóla Íslands standa fyrir fimmta árið í röð. Fundaröðinni er ætlað að vekja athygli á rannsóknum um framhaldsskólastarf og skapa vettvang umræðna um þær.
Alls verður boðið upp á níu opna fyrirlestra og þeir verða allajafna haldnir á miðvikudögum kl. 16:20–17:05 í stofu K-205 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Erindin eru um 20 mínútur og jafnlangur tími er ætlaður til umræðna. Erindin eru flutt á íslensku nema annað sé tekið fram.
Dagskrá fundaraðarinnar er sem hér segir:
- 3. febrúar: Um námsumhverfi í framhaldsskólum. Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Sigrún Harpa Magnúsdóttir, verkefnisstjóri á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
- 10. febrúar: Bókmenntakennsla og sköpun merkingar. Kristján Jóhann Jónsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
- 17. febrúar: Traust, stefnumótun og lýðræði á framhaldsskólastiginu á Íslandi frá 1970 fram á nýja öld. Magnús Ingólfsson, kennari við Borgarholtsskóla.
- 24. febrúar: „Ofboðslega mikið njörvað niður“. Viðhorf framhaldsskólakennara til kennsluhátta. Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
- 2. mars: Druslustimplun. Karen Dögg Bryndísar- og Karlsdóttir, kennari við Hraunvallaskóla.
- 30. mars: Sýna framhaldsskólakennarar nemendum sínum umhyggju í kennslu og samskiptum? Lára Huld Björnsdóttir, framhaldsskólakennari.
- 6. apríl: Upper secondary school teachers‘ kindness and helpfulness towards immigrant students: Is it sufficient? Anh-Dao Tran, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.
- 13. apríl: Íslenskt mál sem menningarauðmagn í framhaldsskólum. Ásgrímur Angantýsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
- 20. apríl: Þrengt að opnu framhaldsskólavali árin 2010–2012: Forsendur og saga málsins. Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir.