Ný bók eftir Gunnhildi Óskarsdóttur
Út er komin bókin „The Brain Controls Everything“: Children's Ideas About the Body eftir Gunnhildi Óskarsdóttur, dósent og deildarforseta við Kennarardeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Bandaríska forlagið IAP - Information Age Publishing gefur bókina út og er hún hluti af ritröð sem ber heitið: Cognition, Equity and Society: International perspectives. Ritstjóri ritraðarinnar er Bharath Sriraman, prófessor í stærðfræði við Háskólann í Montana.
Bókin byggist á doktorsritgerð Gunnhildar og fjallar um hvernig og við hvaða aðstæður hugmyndir barna um mannslíkamann breytast á tveimur fyrstu árum grunnskólans. Varpað er ljósi á hugmyndir barna um útlit, staðsetningu og hlutverk beina og líffæra mannslíkamans og hvaða áhrif kennsluaðferðir, námsefni, námsgögn og samskipti í kennslustofu hafa á þróun hugmynda. Skoðaður var sérstaklega munur á hæglátum börnum í bekk og hinum, sem gjarnan vilja hafa frumkvæði og tjá sig, með tilliti til breytinga á hugmyndum og áhrifum kennslu og samskipta í skólastofunni.
Bókin verður fáanleg í Bóksölu stúdenta og Bóksölu Menntavísindasviðs í Stakkahlíð um miðjan febrúar.
Nánari upplýsingar um bókina er að finna á vefsíðu IAP-útgáfunnar.