Tímarit um uppeldi og menntun sett á laggirnar
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Félag um menntarannsóknir hafa tekið höndum saman og ákveðið að gefa út nýtt tímarit á grunni tímaritanna Uppeldis og menntunar og Tímarits um menntarannsóknir. Nýja tímaritið mun heita Tímarit um uppeldi og menntun og enska heitið er Icelandic Journal of Education. Ritstjórar verða Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, tilnefndur af Menntavísindasviði, og Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, tilnefnd af Félagi um menntarannsóknir.
Í ritnefnd sitja þrír fulltrúar frá Menntavísindasviði og þrír frá Félagi um menntarannsóknir og er hlutverk hennar að vera ráðgefandi og setja tímaritinu ritstjórnarstefnu. Enn fremur er ritstjórum og ritnefnd falið að stofna til alþjóðlegs ráðgjafaráðs þar sem leitað skal til erlendra og íslenskra fræðimanna sem starfa við erlenda háskóla.
Fyrst um sinn taka ritstjórar við handritum til ritrýningar en síðar verður móttaka og meðhöndlun greina rafræn. Ráðgert er að flytja útgáfu tímaritsins inn á vefsvæði sem fleiri tímarit í Háskóla Íslands nota og gefa það út tvisvar á ári með þeim hætti.