Skóli án aðgreiningar í deiglunni

Yfir þrjátíu fulltrúar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga komu saman á samráðsfundi um málefni skóla án aðgreiningar í Stakkahlíð í gær. Samráðsfundir þessara aðila eru haldnir tvisvar á ári og er þeim ætlað að efla faglega umræðu um menntamál og leiða til gagnkvæms ávinnings.
Fjölbreyttur hópur tók til máls á fundinum. Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar, og Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent og deildarforseti Kennaradeildar Menntavísindasviðs, héldu fyrsta erindi fundarins sem bar heitið: Skóli án aðgreiningar. Hvað þýðir það?
Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tók næst til máls og ræddi um mat á framkvæmd stefnu um skóla án aðgreiningar.
Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, flutti því næst fyrirlestur um fjölmenningu og réttlæti og Hafdís Guðjónsdóttir, sem er einnig prófessor við sviðið, tók nokkur dæmi um gott starf í skóla án aðgreiningar úr rannsóknum sínum.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, hélt lokaerindið undir yfirskriftinni: Þörfin á vettvangi. Tækifæri og hindranir við að mæta þörfinni.
Fundarstjóri var Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Menntavísindasvið.
Undirrituðu viljayfirlýsingu í fyrra
Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu viljayfirlýsingu um faglegt samstarf árið 2014. Megintilgangur hennar er að koma á sameiginlegum vettvangi til faglegrar umræðu og skoðanaskipta um nám og kennslu barna og ungmenna, um menntun kennaraefna og starfsþróun að námi loknu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni eru áætlaðir tveir formlegir fundir á ári og frekara samstarf eftir atvikum.
