Skip to main content
14. desember 2015

Fjölmenni á fundi um menntun og fjölmenningu

Fullt var út úr dyrum á hádegisfundi undir yfirskriftinni Menntun og fjölmenning sem fram fór í fundarsal Þjóðminjasafnsins fimmtudaginn 10. desember síðastliðinn á alþjóðlegum degi mannréttinda. Fundurinn var liður í fyrirlestraröðinni Fræði og fjölmenning sem Háskóli Íslands stendur fyrir.

Þáttur menntunar í umræðum um fjölmenningarsamfélagið var viðfangsefni fundarins þar sem sjónum var einkum beint að börnum og ungmennum af erlendum uppruna í íslensku menntakerfi. Hér á landi hefur nú þegar skapast töluverð reynsla af skólastarfi margbreytileikans og þekking með fjölbreyttum rannsóknum á sviði menntavísinda.

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands tók fyrst til máls og fjallaði um hvers konar umgjörð íslensk menntastefna, lög og námskrár mynda fyrir fjölbreytta nemendahópa, einkum börn af erlendum uppruna. Hanna nefndi sérstaklega að breytingar í átt til aukins fjölbreytileika barna í skólum á Íslandi kalla á þekkingu kennara á sviði fjölmenningarfræða og -menntunar.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði frá nýrri fjölmenningarstefnu fyrir skóla- og frístundastarf, Heimurinn er hér, sem tók gildi í Reykjavík á síðasta ári. Stefnan tekur til alls lærdómsumhverfis barna og ungmenna með tilliti til fjölmenningar. Þar er haft að leiðarljósi að öll börn nái árangri í námi og leik, standi vel að vígi félagslega og fái tækifæri til að vera stolt af bakgrunni sínum og menningu.

Kristrún Sigurjónsdóttir, deildarstjóri móttökudeildar Lækjarskóla í Hafnarfirði fjallaði um reynslu Lækjarskóla af því að taka á móti börnum af erlendum uppruna og hvernig sú reynsla hefur og mun nýtast við móttöku flóttabarna og barna hælisleitenda. Kristrún hefur starfað sem deildarstjóri við móttökudeildina í tólf ár og lýsti yfir þungum áhyggjum af stöðu barna hælisleitenda hér á landi og kallaði eftir auknu samtali um málaflokkinn.

Fundarstjóri var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Fyrir áhugasama hefur verið boðið upp þverfaglegt meistaranám í Uppeldis- og menntunarfræðideild á Menntavísindasviði undanfarin ár sem ber heitið lýðræði, jafnrétti og fjölmenningu. Námið er ætlað kennurum og stjórnendum á öllum skólastigum og öðrum sem vinna með börnum og ungmennum. Opnað verður fyrir umsóknir í meistaranám í byrjun mars á næsta ári.

Hér er upptaka af fundinum.

Hér eru fleiri myndir frá fundinum.

Mynd frá fyrirlestrinum Menntun og fjölmenning af tölvuskjá og fólki.
Mynd frá fyrirlestrinum Menntun og fjölmenning af tölvuskjá og fólki.