Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. desember 2019

10/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 5. desember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur og Guðvarð Má Gunnlaugsson), Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Rektor lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð dagskrárliðar 5. Jafnframt spurði rektor hvort einhver annar teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Fjárlög fyrir árið 2020.
Guðmundur R., Jenný Bára og rektor fóru yfir framlagt minnisblað um fjárlög ársins 2020, fjámál Háskóla Íslands og tillögu fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitingar árið 2020. Fram kom m.a. að heildarfjárveiting til Háskóla Íslands stendur nokkurn veginn í stað á milli ára. Málið var rætt.

b)    Tillaga að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands 2020.
Rætt undir lið 2a.

c)    Staða rekstraráætlana einstakra starfseininga Háskóla Íslands.
Guðmundur R. og Jenný Bára gerðu grein fyrir framlagðri áætlun um rekstrarafkomu Háskóla Íslands í heild og einstakra starfseininga á árinu 2020. Fram kom að gert er ráð fyrir að reksturinn verði í jafnvægi. Málið var rætt.

d)    Frá samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál.
Guðmundur R., formaður samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál, gerði grein fyrir stöðu kjaraviðræðna. Kynnt var hugmynd samráðsnefndar um breytingu á kennsluskyldu prófessora. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðmundur R. spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt að fela rektor og samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál að vinna áfram að málinu.

e)    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi ráðsins. Staða mála.
Inn á fundinn kom undir þessum lið Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs. Rektor og Daði Már greindu frá stöðu mála varðandi framtíðarfyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands. Málið var rætt.

Daði Már vék af fundi.

f)    Forathugun vegna framtíðarhúsnæðis fyrir Menntavísindasvið.
Fyrir fundinum lá svarbréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 14. nóvember sl., sbr. bréf rektors til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 1. nóvember sl. Ráðuneytið veitir Háskóla Íslands heimild til að framkvæma forathugun á húsnæðismálum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Drög að siðareglum og starfsreglum siðanefndar Háskóla Íslands, sbr. háskólaþing 31. október sl. og fund háskólaráðs 7. nóvember sl.
Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðuðum siðareglum Háskóla Íslands og endurskoðuðum starfsreglum siðanefndar, sbr. háskólaþing 31. október sl. og fund háskólaráðs 7. nóvember sl. Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors og starfsmaður starfshóps háskólaráðs um endurskoðun siðareglnanna. Fór Björn Atli yfir meðferð málsins frá því að siðareglurnar voru samþykktar á háskólaþingi. Málið var rætt.
– Endurskoðaðar siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands staðfestar samhljóða.

Björn Atli vék af fundi.

4.    Ákvörðun um aðild Háskóla Íslands að sameiginlegri umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri háskóla um þátttöku í verkefninu „European Universities“, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Magnús Þór Torfason, lektor, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu ásamt rektor grein fyrir sameiginlegri umsókn aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri háskóla að verkefninu „European Universities“, sbr. m.a. síðasta fund. Skilafrestur umsóknar er í febrúar nk. Málið var rætt og svöruðu rektor, Magnús Þór og Halldór spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma að vinna áfram að sameiginlegri umsókn Háskóla Íslands og erlendra samstarfsháskóla um aðild að verkefninu „European Universities“ og að skila inn fullunninni umsókn í febrúar nk.

Magnús Þór, Halldór og Siv viku af fundi.

5.    Auglýsing vegna ráðningar háskólarektors fyrir tímabilið 1. júlí 2020-30. júní 2025.
Rektor vék af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs, við fundarstjórn. Fyrir fundinum lá minnisblað um ráðningu rektors Háskóla Íslands og hlutverk háskólaráðs í því efni, og drög að auglýsingu vegna ráðningar háskólarektors fyrir tímabilið 1.7.2020-30.6.2025, sem fyrirhugað er að birta á morgun. Málið var rætt. Jafnframt lá fyrir fundinum tillaga um að fela eftirtöldum fjórum fulltrúum í háskólaráði að undirbúa, að loknum umsóknarfresti, ákvörðun háskólaráðs um það hverjir umsækjenda uppfylla skilyrði um embættisgengi: Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs, formaður, fulltrúi háskólasamfélagsins, Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, fulltrúa stúdenta, Einari Sveinbörnssyni, fulltrúa tilnefndum af mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðvarði Má Gunnlaugssyni, fulltrúa tilnefndum af háskólaráði.
– Framlögð tillaga að auglýsingu vegna ráðningar háskólarektors fyrir tímabilið 1.7.2020-30.6.2025 samþykkt einróma. Ráðgert er að auglýsingin verði birt á morgun, föstudaginn 6. desember nk.

6.    Bókfærð mál.
a.    Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2020-2021. Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2020-2021 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2019-2020) sem og viðeigandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010.

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
− Læknisfræði, BS                         60      (60)
− Sjúkraþjálfunarfræði, BS           35      (35)
− Sjúkraþjálfun, MS                       35      (30)
– Geislafræði, BS                          12       (12)
– Talmeinafræði, MS                    15      (15, 2018-2019)

b.    Hjúkrunarfræðideild
− Hjúkrunarfræði (240 e til BS)                   130    (120)
– Hjúkrunarfræði fyrir fók með
   annað háskólapróf                                       20    (nýtt)
− Ljósmóðurfræði til starfsréttinda, MD      12      (12)

c.    Tannlæknadeild
− Tannlæknisfræði                 8        (8)
− Tannsmiðanám                   5        (5)

d.    Sálfræðideild
− Hagnýt sálfræði, MS, klínísk,
   (áður cand. psych.)                                 20      (20)
− Hagnýt sálfræði, MS, megindleg,
   skóli og þroski, samfélag og heilsa      15      (15)

e.    Lyfjafræðideild
− MS nám í klínískri lyfjafræði                   2         (2)

f.    Matvæla- og næringarfræðideild
− MS nám í klínískri næringarfræði         2         (2)

II. Félagsvísindasvið

a.    Stjórnmálafræðideild
− MA nám í blaða- og fréttamennsku            21      (21)

b.    Félags- og mannvísindadeild
− MA nám í náms- og starfsráðgjöf              40       (40)

c.    Félagsráðgjafardeild
− MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 40      (40)

d.    Viðskiptafræðideild
− MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun   14      (14)

b)    Sjálfsmatsskýrsla Háskóla Íslands, sbr. niðurstöðu háskólaþings 31. október sl. og síðasta fund háskólaráðs.
– Samþykkt.

c)    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga um niðurfellingu á reglum nr. 928/2013 um inntöku nýnema og inntökupróf í Lagadeild.
– Samþykkt.

d)    Frá kennslusviði, f.h. fræðasviða og deilda: Tillaga um lagfæringar/breytingar á reglum nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands, í samræmi við ábendingar og tillögur sem komið hafa fram.
– Samþykkt.

7.    Mál til fróðleiks.
a)    Glærur rektors frá opnum upplýsingafundi rektors 20. nóvember sl.
b)    Bæklingur vegna hátíðar brautskráða doktora 1. desember sl.
c)    Háskóli Íslands á átta listum Times Higher Education yfir bestu háskóla heims.
d)    Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands hljóta viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi.
e)    Í hópi áhrifamestu vísindamanna heims.
f)    Samfélagsleg nýsköpun sett í forgang.
g)    Háskólinn og heimsmarkmiðin.
h)    Viljayfirlýsing um eflingu samfélagslegrar nýsköpunar, dags. 21. nóvember 2019.
i)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. nóvember 2019.
j)    Framkvæmdir hefjast við stækkun Gamla garðs.
k)    Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2019.
l)    Jafnrétti til náms. Grein Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Jónu Þóreyjar Pétursdóttur, forseta Stúdentaráðs, í Fréttablaðinu 15. nóvember 2019.
m)    Umsögn Háskóla Íslands til Alþingis um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna.
n)    Nýr formaður ytri matshóps sem mun annast ytri úttekt á Háskóla Íslands vorið 2020. Kemur í stað Ian Pirie sem hefur dregið sig úr matshópnum af persónulegum ástæðum.
o)    Viðtal við Jón Atla Benediktsson í Morgunblaðinu 5. desember 2019.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.20.