Hjálparljós sigraði Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Hilda Rún Hafsteinsdóttir og Thelma Sif Róbertsdóttir í 7. bekk Sandgerðisskóla sigruðu Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með hugmynd sína Hjálparljós. Keppnin var nú haldin í 30. sinn og voru úrslit kynnt í lokahófi sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík á dögunum.
Úrslit og lokahóf Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2022 var haldið í Háskólanum í Reykjavík, laugardaginn 21. maí við hátíðlega athöfn. Veitt voru verðlaun í átta flokkum komust nemendur víðs vegar að á landinu í úrslit.
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er keppni í nýsköpun fyrir 5. – 7. bekk grunnskólanna en keppnin var nú haldin í 30. sinn. Mörg hundruð hugmyndir, frá skólum víðs vegar af landinu, bárust að þessu sinni. Dómnefnd valdi 25 hugmyndir, sem 37 nemendur stóðu að baki, sem komust í gegnum strangt matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi.
Hilda Rún Hafsteinsdóttir og Thelma Sif Róbertsdóttir í 7. bekk Sandgerðisskóla sigruðu Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með hugmynd sína Hjálparljós og hlutu báðar Samsung Galaxy Book Pro 15,6" fartölvu, að verðmæti 155.000 kr. að launum, í boði ELKO.
Auk þess voru sjö aðrir bikarar veittir í í fjölbreyttum flokkum og hlutu vinningshafar að launum 25.000 kr. inneignarkort, í boði ELKO. Fjármálabikar: Erna Þórey Jónsdóttir í 7. bekk Borgaskóla, hlýtur Fjármálabikar NKG og Arion banka, með hugmynd sína Styrktarkort. Kennari hennar er Signý Traustadóttir. Forritunarbikar: Sigurbjörg Inga Sigfúsdóttir og Sigurbjörg Svandís Guttormsdóttir í 6. bekk Varmahlíðarskóla, hljóta forritunarbikar NKG og SKEMA, með hugmynd sína LesBlinduHjálparAppið. Kennari þeirra er Unnur Sveinbjörnsdóttir. Hringrásarbikar: Úlfhildur Inga O. Gautsdóttir í 7. bekk Landakotsskóla, hlýtur Hringrásarbikar NKG , með hugmynd sína EfnisBangsi. Kennari hennar er Sinead McCarron. Hönnunarbikar: Anna Heiða Óskarsdóttir, Helga Sóley Friðþjófsdóttir og Sveindís Rósa Almarsdóttir í 7. bekk Víðistaðaskóla, hljóta Hönnunarbikar NKG , með hugmynd sína Lýsandi úlpa. Kennari þeirra er Ásta Sigríður Ólafsdóttir. Samfélagsbikar: Fríða Lovísa Daðadóttir og Ólöf Stefanía Hallbjörnsdóttir í 7. bekk Landakotsskóla, hljóta Samfélagsbikar NKG, með hugmynd sína Skemmtilegar Biðstofur. Kennari þeirra er Sinead McCarron. Tæknibikar: Alda Sif Jónsdóttir í 7. bekk Seljaskóla, hlýtur Tæknibikar Pauls Jóhannssonar, með hugmynd sína Fuglamatari. Kennari hennar er Eiríkur Már Hansson. Umhverfisbikar: Agla Styrmisdóttir í 6. bekk Melaskóla, hlýtur Umhverfisbikar NKG og Hugverkastofu, með hugmynd sína Bangsaloppan. Kennari hennar er Sigrún Baldursdóttir. Vilji – Hvatningarverðlaun kennara. Ásta Sigríður Ólafsdóttir, Grunnskólakennari í hönnun og smíði í Víðistaðaskóla, hlaut hvatningarverðlaun kennara í ár, Viljann og er Nýsköpunarkennari grunnskólanna árið 2022. Ásta hlýtur að launum 150.000 kr. í boði Samtaka iðnaðarins ásamt verðlaunabikar og viðurkenningarskjali.
Hilda Rún Hafsteinsdóttir og Thelma Sif Róbertsdóttir sigurvegarar Nýsköpunarkeppni grunnskólanna.