Skip to main content

Reglur nr. 605-2006

Reglur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands, nr. 605/2006

með áorðnum breytingum

1. gr. Starfsskyldur.

Starfsskyldur kennara við Háskóla Íslands skiptast í þrjá meginþætti: rannsóknir, kennslu og stjórnun. Starfsskyldur starfsmanna sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa skiptist í rannsóknir, stjórnun og önnur störf.

2. gr.  Skilgreining starfsþátta.

2.1 Kennsla.

Kennsla við Háskóla Íslands felur í sér þjálfun nemenda til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og takast á við margvísleg störf í þjóðfélaginu. Kennslunni er ætlað að þroska nemendur, temja þeim ögun í vinnubrögðum, auka þekkingu þeirra og gera þeim kleift að beita þekkingunni á sjálfstæðan skapandi og gagnrýninn hátt og til öflunar nýrrar þekkingar. Rannsóknum og kennslu skal fléttað saman á öllum stigum náms, eftir því sem kostur er.

Nám til prófgráðu við Háskóla Íslands skiptist í einstök námskeið sem saman mynda eina heild. Deildir bera ábyrgð á námi og veitingu prófgráða. Deild ákveður því hvaða námskeið eru kennd og hver kennir þau. Kennarar njóta kennslufrelsis innan þess ramma sem deild setur. Þeir ákveða sjálfir námsefni, efnistök og kennsluhætti. Þetta mikilvæga frelsi felur í sér skyldur og ábyrgð gagnvart fræðunum, gagnvart stúdentum og samstarfsfólki.

2.2 Rannsóknir.

Kennarar og sérfræðingar njóta akademísks rannsóknafrelsis, en í því felst að þeir velja sér sjálfir viðfangsefni á fræðasviði sínu og þær aðferðir sem þeir beita. Deild eða stofnun eftir atvikum skilgreinir fræðasvið hvers kennara og sérfræðings. Rannsóknafrelsi felur í sér ábyrgð og skyldur. Niðurstöður rannsókna skulu kynntar á vísindalegum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Þær skulu einnig kynntar almenningi eftir því sem kostur er. Kennarar og sérfræðingar skulu leitast við að afla tekna úr rannsóknasjóðum og frá öðrum aðilum til rannsókna sinna. Kennarar og sérfræðingar skulu árlega gera grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra.

Heimilt er í ráðningarsamningi að fela starfsmönnum sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa, sbr. 4. gr., að sinna þjónusturannsóknum á vegum stofnunar eða deildar. Þjónusturannsóknir geta komið í stað hluta almennrar rannsóknaskyldu og um þjónusturannsóknir gilda ekki ákvæði um rannsóknafrelsi.

2.3 Stjórnun.

Í fyrsta lagi felur stjórnun í sér verkefni í tengslum við kennslu og rannsóknir viðkomandi kennara eða sérfræðings.

[Í öðru lagi felur stjórnun í sér verkefni á vegum fræðasviðs, deildar eða námsleiðar sem mönnum er falið eða þeir eru kjörnir til að sinna tímabundið og um gilda ákvæði sameiginlegra reglna Háskóla Íslands.]1

Í þriðja lagi felur stjórnun í sér verkefni á vegum háskólaráðs eða rektors, sem að jafnaði er greitt fyrir sérstaklega eða umbunað fyrir með öðrum hætti.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 968/2009

3. gr.  Skipting starfsskyldna milli starfsþátta.

Ákvæði þessarar greinar gilda um háskólakennara og sérfræðinga. Greinin á þó ekki við um þá sem gegna starfi deildarforseta.

3.1 Almennar starfsskyldur háskólakennara og sérfræðinga.

  1. Starfsskyldur prófessora skiptast almennt í 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun.
  2. [Starfsskyldur lektora og dósenta í hálfu starfi (50%) eða meira skiptast almennt í 48% kennslu, 40% rannsóknir og 12% stjórnun.]1
  3. [Starfsskyldur lektora og dósenta sem eru í minna en hálfu starfi (50%) skiptast í 69% kennslu, 23% rannsóknir og 8% stjórnun.]1
  4. [Starfsskyldur lektora og dósenta í 20% eða minna starfshlutfalli eru ákveðnar af viðkomandi forseta fræðasviðs að höfðu samráði við starfsmann.]1
  5. [Starfsskyldur aðjúnkta 1 skiptast almennt í 65% kennslu, 31% rannsóknir og 4% stjórnun.]8
  6. Starfsskyldur sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna skiptast í tvo flokka, annars vegar er um að ræða 60% - 80% rannsóknaskyldu og hins vegar 40%. Aðrir starfsþættir sérfræðinga, fræðimanna og vísindamanna eru 20% - 60% eða eftir því sem nánar er kveðið á um í starfslýsingu og ráðningarsamningi.

3.2 Undantekningar frá almennum starfsskyldum.

[I. Hlutfallsleg aukning kennsluskyldu.

A. 

Hlutfallsleg aukning kennsluskyldu umfram almennar starfsskyldur byggir á meðaltals­rannsókna­virkni síðasta árs, síðustu þriggja ára eða síðustu fimm ára eftir því hvað er hagstæðast fyrir viðkomandi.

  1. [Lektorar og dósentar í fullu starfi með færri en 10 rannsóknastig á undangengnu ári eða að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu sbr. töflu A. Prófessorar í fullu starfi með færri en 10 rannsóknastig á undangengnu ári eða að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu sbr. töflu B. Aðjúnktar í fullu starfi með færri en 7 rannsóknastig á undangengnu ári eða að meðaltali síðustu þrjú eða fimm ár fá á sama hátt hlutfallslega aukningu í kennsluskyldu sbr. töflu C.]5
  2. Taka skal tillit til starfshlutfalls og rannsóknaskyldu í hverju tilviki þegar vikið er frá almennum reglum.
  3. Taka skal tillit til breytinga á starfsskyldum vegna töku fæðingarorlofs, veikinda eða slysa, sbr. gildandi reglur þar um.
  4. Ekki skal auka hlutfall kennsluskyldu fyrstu fimm árin í starfi hjá Háskóla Íslands.

    [...]4

[Hlutfallslega aukin kennsluskylda samkvæmt lið A er eins og fram kemur í töflum A, B og C þegar um fullt starf er að ræða.

Töflur A, B og C

]6

B. 

Þrátt fyrir lið A getur kennari óskað eftir því að auka kennsluskyldu sína á kostnað rannsóknaskyldu. Þá getur forseti fræðasviðs við sérstakar aðstæður, t.d. vegna tímabundins álags, skorts á kennslukrafti, veikinda eða fjarvista af öðrum toga, ákveðið í samráði við deildarforseta og viðkomandi kennara að hann auki kennsluskyldu sína tímabundið á kostnað rannsóknarskyldu. Breytingar af þessu tagi skulu ekki hafa í för með sér að laun verði lægri en ef aukin kennsla væri unnin í yfirvinnu. Ennfremur getur rektor kallað starfsmann tímabundið til sérstakra starfa og breytast þá starfsskyldur hans eftir samkomulagi.

Um hlutfallslega aukna kennsluskyldu skv. liðum A og B gildir eftirfarandi:

  • Stjórnunarskylda helst óbreytt en rannsóknaskylda minnkar að sama skapi og kennsluskyldan eykst.
  • Yfirvinnuþak vegna kennslu breytist ekki.
  • Kennslustigum fjölgar um 0,5 stig á ári fyrir hvern hundraðshluta sem kennsluskyldan eykst af heildarvinnuskyldu.]2

II. Hlutfallslega aukin rannsóknaskylda.

  1. Almenn regla: Óski kennari eftir að auka hlutfall rannsóknaskyldu sinnar á kostnað kennsluskyldu skal almenna reglan vera sú að hann finnur kennara í sinn stað og greiðir kennsluna af sértekjum/sjálfsaflafé.
  2. Sérregla: Telji deildarforseti/deild mikilvægt að tilteknum kennara sé gert kleift að auka hlutfall rannsóknaskyldu sinnar getur viðkomandi deild samþykkt að bera kostnaðinn vegna þess.
  3. Kennari sem eykur við sig hlutfall rannsóknarskyldu samkvæmt 1. lið getur ekki kennt í yfirvinnu nema um sé að ræða leiðbeiningu við meistara- og/eða doktorsritgerð.

[III. Tímabundin aukin rannsóknaskylda.

Forseta fræðasviðs er heimilt að færa vinnuskyldu [aðjúnkta 1, lektora og dósenta]7 við fræðasviðið tímabundið frá kennslu til rannsókna að fenginni úthlutun úr sérstökum sjóði sbr. reglur um árangurstengda tilfærslu starfsþátta.]3

1
Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1158/2015


2Breytt með 3. gr. rgl. nr. 968/2009

3Breytt með 4. gr. rgl. nr. 968/2009

4Breytt með 2. gr. rgl. nr. 224/2015

5Breytt með 1. gr. rgl. nr. 302/2015

6Breytt með 2. gr. rgl. nr. 1158/2015

7Breytt með 1. gr. rgl. nr. 169/2020

8Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1049/2021

4. gr.  Starfsmenn sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.

Háskóladeild eða stofnun ákveður skiptingu starfsskyldna milli rannsókna, stjórnunar og annarra starfa fyrir sérfræðinga, fræðimenn og vísindamenn. Kveða skal á um skiptingu starfsskyldna í ráðningarsamningi. Ef við á skal tiltaka í ráðningarsamningi hve hátt hlutfall rannsóknaskyldunnar eru þjónusturannsóknir á vegum stofnunar eða deildar, án rannsóknafrelsis, sbr. 2. gr.

5. gr.  Rannsóknamisseri.

[Til þess að eiga kost á rannsóknamisseri skal meðaltal rannsóknastiga úr völdum flokkum matskerfis opinberra háskóla, sbr. töflu í lok 7. gr. reglna nr. 1300/2020 um framgang akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands, sbr. einnig lið 1, Rannsóknir, í 8. gr. sömu reglna, nema a.m.k. 10 stigum á ári.]1 Miðað er við meðaltal síðustu þriggja eða fimm ára eftir því hvort hagstæðara er fyrir viðkomandi. Skilyrði er að rannsóknaskýrslum sé skilað árlega.

Að öðru leyti gilda fyrri reglur um tímalengd rannsóknamissera og þann tíma er skal líða að lágmarki á milli rannsóknamissera.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 491/2021

6. gr.  Gildistaka o.fl.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur samþykkt, eru settar á grundvelli 11. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 41/1999 og 32. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands, nr. 458/2000. Reglur þessar öðlast gildi 1. janúar 2007 og fellur þá úr gildi samþykkt háskólaráðs um vinnuskyldu fastra kennara frá 8. september 1988. Nánar skal kveða á um framkvæmd reglna þessara í verklagsreglum sem háskólaráð staðfestir.

[...]1

1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 224/2015

Ákvæði til skýringar.

[Með stjórnun í tengslum við rannsóknir og kennslu, sbr. 2. gr., er t.d. átt við samskipti við nemendur, sem þó ekki tengjast beint kennslu viðkomandi kennara, undirbúning kennsluskrár, þátttöku í fundum stjórnar fræðasviðs og deildarfundum, auk setu í nefndum á vegum fræðasviðs eða deildarinnar. Gert er ráð fyrir því að forseti fræðasviðs geti falið einstökum kennurum stjórnunarverkefni á vegum fræðasviðs og deildarforseti geti, í umboði deildarfundar, falið einstökum kennurum stjórnunarverkefni á vegum deildar. Dæmi um verkefni á vegum fræðasviðs/deildar sem menn eru kjörnir til að sinna tímabundið eru starf deildarforseta, varadeildarforseta og forstöðumanns stofnunar.]1

Fram kemur í 4. gr. að deild eða stofnun ákveði skiptingu starfsskyldna sérfræðinga milli rannsókna, stjórnunar og annarra starfa. Með öðrum störfum er hér átt við þjónusturannsóknir, sbr. gr. 2.2, og kennslu. Í 32. gr. sameiginlegra reglna Háskóla Íslands kemur fram að deild getur þegar sérstaklega stendur á falið starfsmanni sem eingöngu er ráðinn til vísinda- og fræðistarfa að sinna ákveðinni kennslu tímabundið.

1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 968/2009

Háskóla Íslands, 10. apríl 2006