Skip to main content

Reglur nr. 483-2010

Reglur um Háskólaútgáfuna, nr. 483/2010

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt.

Háskólaútgáfan er starfrækt af Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð.

2. gr.  Markmið.

Markmið Háskólaútgáfunnar er að gefa út rit um málefni sem tengjast starfsemi Háskóla Íslands. Meginþungi útgáfunnar felst í ritum sem fylgja ströngum alþjóðlegum mælikvörðum við miðlun þekkingar og birtingu rannsóknaniðurstaðna. Heiti og merki Háskólaútgáfunnar skulu auðkenna öll rit sem út koma á hennar vegum.

3. gr.  Hlutverk.

Hlutverk Háskólaútgáfunnar er:

  1. að veita aðilum innan Háskóla Íslands fjölbreytta þjónustu á sviði útgáfumála, svo sem forvinnslu handrita með ritrýni og ritstjórn,
  2. að annast prentumsjón og framleiðslu á ritum sem tekin eru til útgáfu undir heiti og merki Háskólaútgáfunnar, 
  3. að hafa milligöngu um hagkvæma samninga um einstaka framleiðsluþætti í útgáfuferlinu, 
  4. að annast sölu og dreifingu á ritum háskólamanna og standa fyrir kynningu á þeim innan lands og utan,
  5. að veita háskólamönnum ráðgjöf á sviði útgáfumála, 
  6. að efla samstarf við rannsóknarstofnanir og háskóla um dreifingu rannsóknaefnis, 
  7. að leita eftir styrkjum og stuðningi opinberra aðila við útgáfuverkefni.

4. gr.  Stjórn.

Rektor skipar Háskólaútgáfunni þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn og ákveður hver skuli vera formaður stjórnarinnar. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

5. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, og með hæfilegum fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.


Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fundinn í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.


Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðarbók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

6. gr.  Verkefni stjórnar.

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir Háskólaútgáfuna, markar henni stefnu um útgáfu og rekstur og ber ábyrgð á starfsemi hennar gagnvart yfirstjórn háskólans. Meðal verkefna stjórnar er að staðfesta ráðningu starfsliðs, samþykkja rekstraráætlanir og verðskrá auk þess sem stjórnin tekur afstöðu til allra tillagna um stærri útgáfuverkefni sem ráðist er í undir heiti Háskólaútgáfunnar.

7. gr.  Forstöðumaður og annað starfslið.

Rektor ræður forstöðumann útgáfunnar að fengnum tillögum stjórnar og setur honum erindisbréf. Skal sá sem ráðinn er forstöðumaður hafa meistarapróf eða annað sambærilegt háskólapróf hið minnsta. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri útgáfunnar, gerir tillögur til stjórnar um ráðningu starfsliðs og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum. Forstöðumaður gerir samninga um framleiðslu á útgefnum ritum og er heimilt að fela verktökum að annast heildarprentumsjón.


Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn og rektor.

8. gr.  Fjármál.

Reikningshald Háskólaútgáfunnar er hluti af reikningshaldi háskólans.

Tekjur Háskólaútgáfunnar eru:

  1. andvirði rita sem seld eru fyrir reikning útgáfunnar sjálfrar,
  2. þóknun af sölu rita fyrir reikning annarra, 
  3. greiðslur vegna verka sem útgáfan tekur að sér, 
  4. umsýslu-, þjónustu- og lagergjöld vegna útgefinna rita, 
  5. styrkir og aðrar tekjur.

Árlega skal leggja fyrir háskólaráð sjálfstætt og endurskoðað reikningsuppgjör útgáfunnar. Gætt skal að því að opinberu fé sé varið í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

9. gr.  Formlegt mat á rekstri og starfsemi.

Formlegt mat á rekstri og starfsemi Háskólaútgáfunnar skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

10. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 4. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 26. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 296/2001 um Háskólaútgáfuna.

Háskóla Íslands, 18. maí 2010.