Skip to main content

Reglur nr. 200-2019

Reglur um Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 200/2019.

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt.

Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsókna- og fræðastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands í alþjóðlegu vísindaumhverfi.



Stofnunin heyrir undir Heilbrigðisvísindasvið. Hún er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum sviðsins. Að stofnuninni standa deildir og rannsóknar­einingar Heilbrigðis­vísinda­sviðs.

2. gr.  Hlutverk.

Hlutverk Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands er að:

  1. Efla rannsóknir í heilbrigðisvísindum á Heilbrigðisvísindasviði og þeim rannsóknar­einingum sem að stofnuninni standa með sameiginlegum innviðum fyrir alla rannsóknahópa innan sviðsins.
  2. Efla þverfagleg tengsl og rannsóknir milli deilda og rannsóknareininga.
  3. Starfa með innlendum og erlendum háskólum, heilbrigðisstofnunum, rannsókna­stofnunum og fyrirtækjum með gagnkvæma miðlun á þekkingu í huga og til að afla þekkingar fyrir íslenskt samfélag með rannsóknum.
  4. Veita nemendum í rannsóknartengdu námi við Heilbrigðisvísindasvið aðstöðu og aðgang að búnaði til rannsóknastarfa eftir því sem við á hverju sinni.
  5. Efla nám með því að byggja upp frjótt rannsóknarumhverfi fyrir nemendur og þjálfa þá í vísindalegri hugsun og vinnubrögðum í heilbrigðisvísindum, sem veitir hæfi til ýmissa starfa í samfélaginu.
  6. Miðla þekkingu með því að birta og kynna niðurstöður rannsókna í heilbrigðisvísindum.
  7. Annast þjónusturannsóknir eftir því sem við á og veita ráðgjöf um heilbrigðisvísindi.

3. gr.  Aðstaða.

Heilbrigðisvísindastofnun veitir starfsliði sínu, sbr. 1. og 8. gr., aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er. Til aðstöðu teljast skrifstofur og rannsóknarstofur ásamt búnaði þeirra, svo og geymslur fyrir tæki og búnað. Heilbrigðisvísindastofnun mun stuðla að uppbyggingu sameiginlegra innviða fyrir votrannsóknir heilbrigðisvísinda („WET-LAB“) og þurrrannsóknir heilbrigðisvísinda („DRY-LAB“). Í því felast tilraunastofur votrannsókna og fyrir þurrrannsóknir aðstaða fyrir móttöku klínískra rannsókna og aðstaða fyrir gagnarannsóknir, tölfræði og samfélagsrannsóknir.

4. gr.  Skipulag.

Innan Heilbrigðisvísindastofnunar eru starfræktar rannsóknastofnanir, rannsóknasetur, rannsóknarstofur og rannsóknarverkefni á vegum fastráðinna kennara við þær deildir og einingar sem að stofnuninni standa. Deildir bera fjárhagslega ábyrgð á starfsemi þessara aðila gagnvart Heilbrigðisvísindastofnun og geta sett sér reglur um hvaða skilyrðum slík ábyrgð lýtur af hálfu deildar. Unnt er að setja gjaldskrá fyrir tiltekna þjónustu, ef nauðsyn krefur samkvæmt niðurstöðu stjórnar.



Stjórnsýsla Heilbrigðisvísindastofnunar er hluti af skrifstofu Heilbrigðisvísindasviðs sem heyrir undir forseta fræðasviðsins.

5. gr.  Stjórn.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs skipar formann og fimm manna stjórn Heilbrigðis­vísinda­stofnunar til þriggja ára í senn úr röðum vísindanefndar og doktorsnáms­nefndar Heilbrigðisvísindasviðs ef kostur er. Unnt er að skipa ytri ráðgjafahóp fyrir Heilbrigðisvísindastofnun ef stjórn sviðsins telur af því ávinning.



Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stjórn Heilbrigðisvísindastofnunar skiptir með sér verkum.

6. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar, eða starfsmaður í umboði hans, boðar stjórnarfundi með tölvupósti, með minnst fimm daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar. Formaður stýrir stjórnarfundum.



Skylt er að boða stjórnarfund óski einn eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef deildarforsetar aðildardeilda eða forstöðumenn eininga sem standa að stofnuninni, sbr. 1. gr., forseti Heilbrigðisvísindasviðs eða rektor bera fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum.



Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Rannsóknastjóri situr stjórnarfundi og ritar fundargerð. Afrit fundargerða skulu send forseta Heilbrigðisvísindasviðs. Fundargerðir skulu varðveittar í skjalasafni Háskóla Íslands.



Stjórnarfundi skal halda minnst einu sinni á hverju misseri.

7. gr.  Verkefni stjórnar.

Stjórn fjallar um öll sameiginleg málefni stofnunar, tekur stefnumarkandi ákvarðanir og setur henni starfsreglur eftir því sem þörf er á. Stjórnin sker úr um vafaatriði sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. Stjórnin efnir til ársfundar Heilbrigðis­vísinda­stofnunar með starfsmönnum þar sem ársskýrsla er lögð fram og önnur  mál svo sem kveðið er á um í reglum Háskóla Íslands.

8. gr.  Aðild.

Aðild að Heilbrigðisvísindastofnun eiga deildir og einingar sem skipaðar eru prófessorum, dósentum, lektorum, þar með talið erlendum sendikennurum og aðjúnktum við Heilbrigðisvísindasvið, auk sérfræðinga og nýdoktora sem fá aðstöðu við heilbrigðisvísindastofnun og doktorsnemar sem eru skráðir í nám á Heilbrigðisvísindasviði. Heimilt er jafnframt að veita akademískum starfsmönnum og nýdoktorum annarra fræðasviða háskólans aðild að stofnuninni. Einnig aðilum utan háskólans og skal þá gerður sérstakur samningur þar um.

9. gr.  Fjármál.

Tekjur Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. styrkir til einstakra verkefna,
  2. samrekstrar- og aðstöðugjöld,
  3. aðrar tekjur, t.d. Aldarafmælissjóður, gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum,
  4. framlög frá Heilbrigðisvísindasviði sem eru hluti fjárveitingar til sviðsins vegna rannsókna,
  5. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi ef sett er viðeigandi gjaldskrá. sbr. 4 gr. þessara reglna og VII. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs og heyra alfarið undir stjórn sviðsins. Fjárhagsáætlanir skulu bornar undir rekstrarstjóra og forseta fræðasviðs. Ef um er að ræða útselda þjónustu sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

10. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu stjórnar Heilbrigðisvísindasviðs, öðlast þegar gildi.

 

Háskóla Íslands, 12. febrúar 2019.