Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. nóvember 2019

09/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 7. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur), Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Ólafur Pétur Pálsson sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 7. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-september 2019.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu rekstraryfirliti Háskóla Íslands fyrir fyrstu 9 mánuði ársins. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fram kom að rekstur Háskóla Íslands er í jafnvægi það sem af er árinu.

b)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Málið var rætt.

c)    Stefna ríkisaðila til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðuneytis 18. september sl.
Fyrir fundinum lá skilagrein um stefnumiðaða áætlun Háskóla Íslands til þriggja ára, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

d)    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fundi ráðsins 10. janúar, 4. apríl, 2. maí og 6. júní sl. Staða mála.
Lagt var fram bréf rektors til fjármála- og efnahagsráðherra, dags. 4. nóvember 2019, með tillögum Háskóla Íslands um framtíðarskipan á fasteignum Háskólans. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Rektor falið að vinna áfram að málinu í samræmi við þau sjónarmið Háskóla Íslands sem fram eru sett í bréfinu.

e)    Staða kjaraviðræðna, sbr. síðustu fundi.
Guðmundur R. gerði grein fyrir stöðu yfirstandandi kjaraviðræðna. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Niðurstöður háskólaþings 31. október sl.
Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum háskólaþings 31. október sl. Fram kom að ráðgert er að endurskoðaðar siðareglur og starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands, sem voru til umfjöllunar á þinginu, verði lagðar fram til staðfestingar á næsta fundi ráðsins.

4.    Framtíðarskipulag háskólasvæðisins. Kynning á hugmyndum erlendra ráðgjafa.
Inn á fundinn kom Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, og gerði grein fyrir fyrirliggjandi tillögum að framtíðarskipulagi háskólasvæðisins sem unnar hafa verið á vettvangi skipulagsnefndarinnar í samstarfi við erlenda ráðgjafa. Um er að ræða stórt og mikilvægt mál fyrir framtíðarþróun Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, sem snertir m.a. þróun starfsemi Háskólans, umhverfi, ásýnd og samgöngur innan borgarinnar.

Áður en til ákvörðunar kemur er næsta skref að leggja mat á, í samráði við Reykjavíkurborg, hvort og með hvaða hætti unnt er að forgangsraða einstökum hlutum tillögunnar og gera áætlun um framkvæmd hennar. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Hrund Ólöf vék af fundi.

5.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um að stofnuð verði Sjúkraþjálfunardeild innan Heilbrigðisvísindasviðs.
Rektor gerði grein fyrirliggjandi tillögu Heilbrigðisvísindasviðs um að stofnuð verði Sjúkraþjálfunardeild innan sviðsins. Málið var rætt.
– Samþykkt að fela formönnum þriggja starfsnefnda háskólaráðs, þ.e. kennslumálanefndar, vísindanefndar og gæðanefndar, í samráði við nefndirnar, að leggja sameiginlega rökstutt mat á tillöguna. Formaður gæðanefndar leiði starfið og framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og ráðgjafi rektors vinni með formannanefndinni. Niðurstöðu verði skilað til rektors fyrir lok desember 2019.

6.    Sameiginleg umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri háskóla um aðild að verkefninu „European Universities Network“, sbr. fund ráðsins 6. júní sl. Staða mála.
Inn á fundinn komu Magnús Þór Torfason, lektor, Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu ásamt rektor grein fyrir stöðu mála varðandi sameiginlega umsókn nokkurra aðildarháskóla Aurora samstarfsnetsins og fleiri háskóla að verkefninu „European Universities Network“. Málið var rætt og svöruðu rektor, Magnús Þór, Friðrika og Halldór spurningum ráðsmanna.

Magnús Þór, Friðrika og Halldór viku af fundi.

7.    Erindi til háskólaráðs.
Ólafur Pétur vék af fundi undir þessum dagskrárlið. Inn á fundinn kom Anna Rut Kristjánsdóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og fór yfir minnisblað um erindið og drög að niðurstöðu. Málið var rætt.
- Samþykkt að vísa málinu frá háskólaráði þar sem það fellur utan valdsviðs þess.

Anna Rut vék af fundi.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að reglum um doktorsstyrkjasjóð og breytingu á 75. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.

b)    Frá Vísindasiðanefnd: Endurskoðun vísindasiðareglna Háskóla Íslands vegna nýrrar löggjafar um persónuvernd.
– Samþykkt.

c)    Frá Hugvísindasviði: Nýjar reglur um doktorsnám og doktorspróf við Hugvísindasvið.
– Samþykkt.

d)    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Hjartaverndar um kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum (endurnýjaður).
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Framsaga rektors á háskólaþingi 31. október sl.
b)    Í hópi 200 bestu háskóla heims í verkfræði þriðja árið í röð.
c)    Háskólinn og heimsmarkmiðin – Heilsa og vellíðan.
d)    Háskólinn og heimsmarkmiðin. Grein eftir Jón Atla Benediktsson, rektor, í Fréttablaðinu 25. október 2019.
e)    Áhugi á auknu samstarfi meðal japanskra háskóla.
f)    Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. október 2019.

g)    Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um umgjörð meistaranáms, sbr. samþykkt háskólaráðs 1. nóvember 2018. Staða mála.
h)    Grein rektors um gildi háskólastarfs á vef EUA.
i)    Í hópi þeirra bestu á sviði menntavísinda og félagsvísinda.
j)    Finnur Dellsén hlýtur hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.05.