1/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Fjárlög ársins 2022.
Fyrir fundinum lá minnisblað fjármálanefndar háskólaráðs um fjárlög ársins 2022 og fjármál Háskóla Íslands. Gerðu rektor, Jenný Bára og Guðmundur grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom m.a. að framlag til Háskóla Íslands hækkar sem nemur rúmlega 6% á milli ára og er útlit fyrir að rekstur ársins 2022 verði í jafnvægi. Fram kom einnig að í fjárlögum fyrir árið 2022 er Háskóla Íslands veitt heimild til að stofna eignarhaldsfélag um eignarhluti skólans í sprotafyrirtækjum og lagði rektor til að aðstoðarrektor vísinda verði falið að fylgja málinu eftir og undirbúa stofnun félagsins með fulltingi vísinda- og nýsköpunarsviðs.
– Samþykkt.
b. Tillaga að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitingar árið 2022. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir tillögunni og var hún rædd.
– Tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands 2022 samþykkt einróma.
c. Rekstraráætlanir einstakra starfseininga, sbr. síðasta fund.
Jenný Bára greindi frá stöðu mála varðandi rekstraráætlanir fræðasviða og annarra starfseininga Háskóla Íslands.
d. Saga – ný bygging Háskóla Íslands. Staða máls og næstu skref.
Rektor greindi frá undirritun samnings um kaup á Sögu og næstu skref varðandi endurbætur og nýtingu hússins. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Jenný Bára vék af fundi.
3. Útreikningur tímafjölda að baki námskeiðum við Háskóla Íslands (vinna starfshóps).
Ólafur Pétur Pálsson, formaður starfshóps um útreikning tímafjölda að baki námskeiðum við Háskóla Íslands, gerði grein fyrir starfi hópsins og drögum að tillögum. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.
Guðmundur vék af fundi.
4. Málefni innri endurskoðunar.
Inn á fundinn kom Sigurjón G. Geirsson, nýr innri endurskoðandi Háskóla Íslands. Rektor ræddi hversu mikið heillaskref það hefði verið fyrir Háskóla Íslands að ráða innri endurskoðanda 2015 og stofna síðan endurskoðunarnefnd. Ásthildur Otharsdóttir, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, og Sigurjón gerðu grein fyrir hlutverki og áherslum innri endurskoðunar og endurskoðunarnefndar. Málið var rætt. Ráðgert er að leggja fram tillögu að endurskoðunaráætlun fyrir árið 2022 á fundi ráðsins 3. febrúar nk.
Sigurjón vék af fundi.
Fundarhlé.
5. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi aldarafmælissjóð og innleiðingu verkefnastofna stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26, á þessu ári. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum.
Steinunn vék af fundi.
6. Aurora samstarfið.
Inn á fundinn komu Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Harpa Sif Arnarsdóttir og Auður Inga Rúnarsdóttir, verkefnisstjórar AURORA samstarfsins. Fór Harpa Sif yfir stöðu mála, umfang og áherslur ársins 2022 í samstarfinu. Málið var rætt og svöruðu rektor og þau Harpa Sif, Inga og Halldór spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Halldór, Harpa Sif og Auður Inga viku af fundi.
7. Bókfærð mál.
a. Tillögur að breytingum á reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 vegna nýrra námsleiða, breytinga og niðurfellingar á námsleiðum.
Frá Félagsvísindasviði:
- Tillaga um nýja námsleið til viðbótardiplómu í farsæld barna við Félagsráðgjafardeild. Breyting á 86. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
- Tillaga um nýja námsleið til doktorsprófs í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild. Breyting á 92. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
- Tillaga er varðar breytingu námsleiða í Viðskiptafræðideild, MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum, í reikningsskilum og endurskoðun, er komi í stað tveggja námsleiða til M.Acc.-prófs í reikningsskilum og endurskoðun – og breytingar á þverfaglegu námi til MA-prófs í skattarétti og reikningsskilum. Breytingar á 94. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
Frá Heilbrigðisvísindasviði:
- Stofnuð verði ný 120 eininga námsleið til MS-prófs í geðhjúkrun, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Landspítala. Breytingar á 97. og 98. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
Frá Hugvísindasviði:
- Stofnuð verði ný 120 eininga námsleið til MA-prófs í djáknafræði í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem leysi af hólmi tvær eldri námsleiðir (annars vegar 60 eininga nám til viðbótardiplómu í djáknafræði og hins vegar 180 eininga nám til BA-prófs í greininni).
Breyting á 111. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
- Stofnuð verði ný 120 eininga námsleið til MA-prófs í menningarmiðlun í Sagnfræði- og heimspekideild. Breyting á 115. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
b. Tillögur að breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar.
Frá Heilbrigðisvísindasviði:
- Breytingar á 5. gr. reglnanna er varða Hjúkrunarfræðideild:
Vegna takmörkunar á fjölda nýrra nemenda í ljósmóðurfræði til starfsréttinda (14).
– Samþykkt.
- Vegna fyrirhugaðrar takmörkunar á fjölda nýrra nemenda í nýrri námsleið til MS-prófs í geðhjúkrun (12) og um val nemenda.
– Samþykkt.
- Vegna fyrirhugaðrar takmörkunar á fjölda nýrra nemenda í viðbótardiplómanámi í skurðhjúkrun (13) og svæfingahjúkrun (10) á meistarastigi og um val nemenda.
– Samþykkt.
- Vegna fjöldatakmörkunar í Tannlæknadeild á vormisseri 2022 (10 í stað 8). Breyting á 7. gr. reglnanna.
– Samþykkt.
c. Frá Félagsvísindasviði:
Tillögur að breytingum á reglum nr. 643/2011 um meistaranám við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og um nýjar reglur í stað reglna nr. 484/2010 um þverfaglegt meistaranám við Háskóla Íslands í skattarétti og reikningsskilum.
- Tillaga um breytingar á 18. gr. reglna nr. 643/2011 um meistaranám við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Tengist tillögu að breytingum á 94. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009 (sbr. hér framar).
– Samþykkt.
- Tillaga að nýjum reglum um þverfaglegt meistaranám við Háskóla Íslands í skattarétti og reikningsskilum í stað gildandi reglna nr. 484/2010. Lagt til vegna umtalsverðra breytinga á fyrirkomulagi þverfræðilegs MA-náms í skattarétti og reikningsskilum, sem skipulagt er í samstarfi Lagadeildar og Viðskiptafræðideildar.
– Samþykkt.
d. Frá Heilbrigðisvísindasviði:
Tillaga að breytingum á reglum nr. 60/2019 um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og tillaga að reglum um Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.
- Í tengslum við tillögu um nýja námsleið til MS-prófs í geðhjúkrun, við Hjúkrunarfræðideild (sbr. hér framar) leggur Heilbrigðisvísindasvið til breytingar á 6. og 7. gr. reglna nr. 60/2019 um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
- Tillaga að reglum um Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði.
– Samþykkt.
e. Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár Háskóla Íslands 2022-2023.
– Samþykkt.
f. Tillaga frá Heilbrigðisvísindasviði um fjölgun nemenda í hjúkrunarfræði á vormisseri 2022.
– Samþykkt.
8. Mál til fróðleiks.
a. Uppfært dagatal Háskóla Íslands 2021-2022.
b. Viljayfirlýsing undirrituð um að hús Norðurslóðar rísi í Vatnsmýri.
c. Fréttabréf Háskólavina, dags. 22. desember 2021.
d. Þrír prófessorar sæmdir fálkaorðunni á nýársdag.
e. Umsögn Háskóla Íslands um stjórnartillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þingskjal 169 – 167. mál.
f. Ríkið og Félagsstofnun stúdenta kaupa Hótel Sögu fyrir starfsemi Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir.
g. HÍ og Hringbraut saman í sjónvarpi.
h. Nýr endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.