Það vakti mikla athygli sumarið 2007 þegar Ingibjörg R. Magnúsdóttir hafði forgöngu um að stofna sérstakan sjóð til að styrkja rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands. Sjóðinn stofnaði hún ásamt Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði og var ákveðið að kalla hann Rannsóknasjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.
Aðrir sem lögðu sjóðnum til stofnfé voru Glitnir, Ljósmæðrafélag Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og ýmsir einstaklingar. Ingibjörg hefur síðan árlega lagt fram viðbótarframlög til sjóðsins en einnig hefur safnast fjármagn í sjóðinn með gjafafé, t.d. í tilefni árgangaafmæla og sölu minningar- og tækifæriskorta. Árið 2008 gaf Sigurður Helgason einnar milljónar króna viðbótarframlag við stofnfé sjóðsins.
Tilefnið að stofnun rannsóknasjóðsins er, að sögn Ingibjargar, að hún hafði áhuga á að rétta hjúkrunarfræðikennurum hjálparhönd til að bæta við menntun sína og til að auka rannsóknavirkni. „Ég lagði fram eina milljón króna ef einhver gæti notfært sé það fé til frekara náms. Kennarar í hjúkrunarfræðinni voru fljótir að sjá að best væri að stofna sjóð og reyna að fá fleiri til að leggja málinu lið og á stuttum tíma voru komnar fimm milljónir króna til sjóðsmyndunar.“ Aldrei neitt hálfkák þegar Ingibjörg er annars vegar!
Styrkir úr sjóðnum eru veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi vegna rannsóknaverkefna sem falla að markmiðum sjóðsins. Frá árinu 2008 hefur verið úthlutað árlega úr sjóðnum og til ársins 2014 hafa 27 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður notið styrkja úr honum. Sjóðurinn hefur verið mikil lyftistöng fyrir rannsóknir í þessum greinum heilbrigðisvísinda. Sem dæmi um verkefni sem hlotið hefur styrk úr sjóðnum má nefna rannsókn dr. Helgu Gottfreðsdóttur, dósents í ljósmóðurfræði, en Helga var fyrsti doktorinn sem brautskráðist frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2009. Rannsókn Helgu fjallaði um verðandi foreldra og ákvörðun um fósturskimun og voru þættir í umhverfi heilbrigðra kvenna og maka þeirra á Íslandi skoðaðir og var leitast við að skilja aðdraganda og ákvörðun þeirra um að þiggja skimun eða hafna henni.
Ingibjörg R. Magnúsdóttir
Ingibjörg hafði forgöngu um stofnun rannsóknasjóðs til að styrkja rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.
Ingibjörg R. Magnúsdóttir hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar á sviði hjúkrunarmenntunar á Íslandi og átti hún stóran þátt í að kennsla í hjúkrunarfræði var tekin upp við Háskóla Íslands 1973, en skólinn var einn af fyrstu háskólunum í Evrópu að bjóða upp á slíkt nám. Ingibjörg var á þeim tíma skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og hún varð jafnframt fyrsti námsbrautarstjóri námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Áður hafði hún m.a. verið hjúkrunarforstjóri við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ingibjörg fæddist á Akureyri 1923 og hefur hún notið þess að vera afar heilsuhraust til líkama og sálar og tekur virkan þátt í lífinu.
Með stofnun rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur sýndi Ingibjörg í verki þann mikla metnað og stuðning við þróun menntunar og starfs í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði sem einkenndi störf hennar fyrir hjúkrunarstéttina alla tíð. Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.