Vísindavefurinn hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir framúrskarandi vísindamiðlun
Vísindavefurinn hlýtur viðurkenningu Rannís fyrir framúrskarandi vísindamiðlun í ár en tilkynnt var um það við upphaf Vísindavöku í Laugardalshöll laugardaginn 28. september. Fulltrúar Háskólans og vefsins tóku við viðurkenningunni úr hendi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Vísindavefurinn hefur allt frá árinu 2000 fjallað um allar tegundir vísinda og fræða, allt frá stjörnufræði til handrita og frá sameindalíffræði til sálfræði. Vefurinn er í nánum tengslum við samfélagið þar sem hann svarar spurningum sem berast frá almenningi, ekki síst ungmennum.
Eitt brýnasta hlutverk Vísindavefsins er að takast á við áskoranir samfélagsins og er hann mikilvægt tæki til að sporna við falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Hann miðlar mjög brýnni þekkingu til fólks um allt milli himins og jarðar – til allra í samfélaginu. Vísindavefurinn er mikilvægt og áreiðanlegt stoðtæki skólafólks í námi og við ritgerðarsmíð auk þess að vera uppspretta fyrir fjölmiðlafólk í viðtækum skilningi þegar fjallað er um hvers kyns mál á vettvangi fjölmiðla.
Gestir Vísindavefsins geta fundið svör við spurningum um flest milli himins og jarðar og einnig lagt fram nýjar spurningar um hvaðeina sem ætla má að fræðafólk innan Háskóla Íslands og annað stuðningsfólk vefsins geti svarað eða fundið svör við. Spurningarnar fara rakleiðis til ritstjórnar og starfsfólks vefsins.
Starfsfólk Vísindavefsins eru Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri en auk þeirra hafa fjölmargir starfað við vefinn um lengri og skemmri tíma. Síðan er ótalinn aragrúi höfunda sem svarar spurningum lesenda, langstærstur hluti þeirra er vísinda- og fræðafólk við Háskóla Íslands.
Sjö þúsund heimsækja vefinn dag hvern
Vinsældir Vísindavefsins hafa aukist jafnt og þétt frá upphafi og að meðaltali heimsækja yfir sjö þúsund manns vefinn á degi hverjum og fletta þar tæplega níu þúsund síðum. Breiddin í lestri er veruleg og þannig getur fjöldi þeirra svara sem lesin eru á einum degi hæglega nálgast sex þúsund. Gera má ráð fyrir að þrettán prósent þjóðarinnar heimsæki vefinn í hverri viku.
„Því er Vísindavefurinn vel að því kominn að hljóta viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun árið 2024,“ segir á vef Rannís um vefinn og viðurkenninguna.
Margir hafa lagt hönd á plóg sem starfsmenn vefsins ásamt Þorsteini Vilhjálmssyni, prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, sem var aðalritstjóri frá byrjun og fram til sumarsins 2010 þegar Jón Gunnar Þorsteinsson tók við. Fyrstu starfsmennirnir voru Tryggvi Þorgeirsson sem þá var nýstúdent og Hrannar Baldursson uppeldisfræðingur.
Með ritstjóra starfar fagleg ritnefnd akademískra starfsmanna, skipuð til þriggja ára í senn. Í núverandi ritnefnd sitja: Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði á Heilbrigðisvísindasviði, formaður, Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði á Hugvísindasviði, Guðrún Dröfn Whitehead, lektor í safnafræði á Félagsvísindasviði, Hafsteinn Einarsson, lektor í iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði og náttúruvísindasviði, Tryggvi Brian Thayer, aðjúnkt á Menntavísindasviði.