Skip to main content
8. september 2016

Vísindavefur HÍ á staðreyndavakt vegna alþingiskosninga

""

Alþingiskosningar verða 29. október 2016. Af því tilefni býður Vísindavefur Háskóla Íslands almenningi að senda inn spurningar sem gætu vaknað í tengslum við kosningabaráttu flokkanna.

Í kosningabaráttu er algengt að stjórnmálamenn og talsmenn stjórnmálaflokka setji fram fullyrðingar um tölulegar staðreyndir eða um þætti sem hægt er að staðreyna, til dæmis um útgjöld til ýmissa málaflokka svo sem heilbrigðis- og menntamála.

Ef lesendur sjá fullyrðingar af hálfu stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka sem þeim þykir ástæða til að sannreyna frekar, geta þeir spurt sérfræðinga Vísindavefsins álits.

Dæmi um spurningar sem væri hægt að svara eru til dæmis:

    Hvert er hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu?

    Hvert var hlutfallið fyrir 5 árum?

    Hefur aldurssamsetning þjóðarinnar áhrif á heilbrigðisútgjöld?

Reynt verður að hafa svör við spurningum stutt og hnitmiðuð og ekki verður farið út í umfangsmikla túlkun og greiningu í svörunum.

Öll svörin munu birtast á Vísindavefnum og í vefmiðlinum Kjarnanum.

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sér um faglega ritstjórn svaranna ásamt Jóni Gunnari Þorsteinssyni, ritstjóra Vísindavefsins.

Hægt er að senda inn spurningar með því að smella á græna hnappinn Sendu inn spurningu á forsíðu Vísindavefsins.

Þingsalur Alþingishússins
Þingsalur Alþingishússins