Vísindamenn HÍ og Hjartaverndar finna próteinmynstur í blóði sem tengjast áhættu á Alzheimersjúkdómi
Ný rannsókn á gögnum Hjartaverndar hefur leitt í ljós að magn ákveðinna prótína í blóði er tengt áhættu á að greinast síðar með Alzheimersjúkdóm. Vísindamenn Hjartaverndar og Háskóla Íslands fóru fyrir rannsókninni en niðurstöður hennar birtust í tímaritinu Nature Aging þann 21. ágúst 2024 undir heitinu „Serum proteomics reveal APOE-ε4-dependent and APOE-ε4-independent protein signatures in Alzheimer’s disease“.
Í rannsókninni var magn 4.872 próteina í sermi 5.127 einstaklinga úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar kannað. Marktækur munur var á magni um 300 prótína í blóði þeirra sem seinna greindust með Alzheimersjúkdóm og þeirra sem ekki fengu sjúkdóminn. Þegar var vitað um tengsl sumra þessara prótína við Alzheimersjúkdóminn í heilavef eða heila- og mænuvökva úr fyrri rannsóknum samstarfsaðila (sem eru meðhöfundar á greininni), en þessi rannsókn er ein sú fyrsta sem sýnir að magn þeirra í blóði getur einnig gefið vísbendingar um snemmbúin stig sjúkdómsins. Þessar niðurstöður eru mikilvægar þar sem töluvert auðveldara er að nálgast sýni úr blóði en öðrum vefjum og opnast þar með nýir möguleika til að fylgjast með framþróun sjúkdómsins.
APOE-ε4 er þekktur erfðaþáttur sem eykur áhættu á Alzheimersjúkdómi. Um helmingur þeirra prótíntengsla við Alzheimersjúkdóm sem fundust í rannsókninni var óháður APOE-ε4 erfðaþættinum og veita því upplýsingar um almenna áhættu á sjúkdóminum. Hluti prótínanna virtist hins vegar sérstaklega endurspegla APOE-ε4 erfðaþáttinn og geta því varpað nýju ljósi á þá líffræðilegu ferla sem APOE-genið hefur áhrif á og hvernig það tekur þátt í myndun sjúkdómsins. Þessar niðurstöður gefa mikilvægar upplýsingar um þá líffræðilegu ferla sem breytast á snemmbúnu stigi sjúkdómsins og gefa færi á mögulegum nýjum lífmerkjum og jafnvel lyfjaskotmörkum, bæði í ferlum háðum og áháðum APOE-ε4 áhættuerfðaþættinum.
Fyrsti höfundur greinarinnar er Elísabet A. Frick, nýdoktor hjá Hjartavernd, en hún hlaut nýverið styrk úr nýdoktorasjóði Háskóla Íslands til áframhaldandi rannsókna á sama sviði. Rannsóknina leiddu Valborg Guðmundsdóttir, rannsóknasérfræðingur við Læknadeild og Hjartavernd, og Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor emeritus við Læknadeild HÍ. Verkefnið var styrkt af National Institute of Aging, Bandaríkjunum og Rannsóknasjóði Rannís. Einnig komu að rannsókninni aðrir vísindamenn Hjartaverndar og Háskóla Íslands, og samstarfsaðilar við National Institute of Aging, Novartis, University of Emory og Ace Alzheimer Center Barcelona.