Skip to main content
5. nóvember 2020

Verðlaunuð fyrir árangur í rannsóknum

Talmeinafræðingur og barn

Kathryn Crowe, nýdoktor í talmeinafræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu Charles Sturt University í Ástralíu fyrir árangur í rannsóknum.

Skólinn veitti á dögunum í fyrsta sinn viðurkenningar til fyrrverandi nemenda sem þykja hafa náð langt á sínu sviði og látið að sér kveða í samfélaginu, þar á meðal í rannsóknum. Kathryn lauk doktorsprófi frá Charles Sturt University árið 2013 og hefur síðan þá m.a. gegnt nýdoktorastöðum við Rochester Institute of Technology í New York og Kaupmannahafnarháskóla. 

Hún kom til starfa á nýdoktorastyrk við Læknadeild Háskóla Íslands í fyrra fyrir tilstuðlan nýliðunarsjóðs skólans og sinnir bæði kennslu og rannsóknum í talmeinafræði.

Rannsóknaráherslur Kathryn innan talmeinafræðinnar tengjast m.a. máltöku fjöltyngdra heyrnarskertra og heyrnarlausra barna og máltöku fjöltyngdra heyrandi barna. Hún hefur þegar birt um 60 vísindagreinar á sínum ferli og hlaut í fyrra ásamt samstarfskonu sinni ritstjórnarverðlaun Bandarísku talmeinafræðisamtakanna (American Speech-Language-Hearing Association) fyrir bestu vísindagreinina sem birtist í tímaritinu American Journal of Speech-Language Pathology á árinu 2018.
 

Kathryn Crowe